Rætt um að fá þyrluna í fyrramálið

Auk slökkviliðsmanna frá Súðavík hefur bóndinn á Látrum verið með …
Auk slökkviliðsmanna frá Súðavík hefur bóndinn á Látrum verið með dráttarvél og haugsugu á staðnum við slökkvistörf. Ljósmynd/Ómar Már Jónsson

„Ég hef rætt við Landhelgisgæsluna og þar er nú verið að kanna möguleikana á að þyrlan geti komið til aðstoðar í fyrramálið og þá tel ég að við ættum að geta klárað þetta. Það eru tíu manns að störfum þarna nú í kvöld,“ segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík, um slökkvistarfið á Hrafnabjörgum í Laugardal í Suðavíkurhreppi.

„Þetta er mór og lággróður og þó svo að það sé búið að slökkva í einu sinni lifir mikil glóð í þessu. Það gerðist þegar við slökktum eldinn fyrst að hann gaus upp aftur sólarhring seinna og þá var það bara af glóðum sem njóta góðs af vindi og feykjast í þurran gróður aftur. Við erum búin að vera með tvískiptar vaktir frá þeim tíma og þarna er verið að dæla 780 tonnum af vatni á svæðið á dag,“ segir Ómar.

„Við erum með mjög góðar dælur og búin að lágmarka að eldurinn geti borist út í ný svæði, en á tveggja og hálfs til þriggja hektara svæði er mjög víða glóð í jörðu sem getur við minnsta tilefni orðið að eldi. Hún er svo þurr jörðin að þó að við dælum einhverjum hundruðum tonna á í dag er það svæði orðið þurrt á morgun og tilbúið að taka í sig glóð aftur,“ segir Ómar.

Vonast eftir rigningu eins og spáð hefur verið

„Við höfum bara verið að tryggja það að jaðrarnir séu blautir og glóðarlausir og svo höfum við verið að færa okkur nær og nær kjarnanum því þetta er afmarkað svæði, tangi fyrir neðan Hrafnabjörg við Laugarvatn. Það svæði sem við tökum síðast er við árbakkann og vatnið því það eru minnstar líkur á að það nái að breiða úr sér.

Það er mjög afkastamikill búnaður sem við erum með og við erum smátt og smátt að ráða niðurlögum glóðarsvæðisins og svo er maður að vona að það fari að rigna í fyrsta skipti í sumar eins og spáð hefur verið. Það þyrfti ekkert mikla rigningu til að bleyta vel í svæðinu og kæla það og þá væri eftirleikurinn mjög auðveldur og myndi hjálpa okkur.

Við höfum verið með samstarf við bóndann á Látrum, sem er með haugsugu sem tekur um þrettán tonn og er um fimm mínútur að fylla sig. Hann hefur verið á fullu í heyskap og hefur verið mjög liðlegur að gera það sem hann getur og er að fara í kvöld aftur. Hann fer nokkrar ferðir og tekur vatn í ánni og fer með á valda staði og úðar því þar,“ segir Ómar og bætir við: „Þetta er langt komið vil ég meina, en ég sé fyrir mér að við gætum þurft að vera viðloðandi þetta frameftir vikunni.“

Hafa fengið lögreglu til aðstoðar og kanna rétt sveitarfélagsins

„Það sem maður setur spurningarmerki við er að við vitum að þarna voru einhverjir veiðimenn sem fóru mjög óvarlega, því þeir hafa að öllum líkindum verið með einnota grill og verið þarna á ferðinni 2. ágúst. Það eru vitni að því að það kviknaði einhver smáeldur hjá þeim við árbakkann, út frá þessu einnota grilli, sem þeir síðan ná að slökkva ásamt þeim sem komu að. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir því hvernig umhverfið vinnur allt saman og þeir hafa ekki slökkt í nema bara yfirborðseldinum. Eftir hefur verið einhver glóð sem nær síðan að blossa upp 3. ágúst þegar við fáum útkallið.

Það hefur verið haft samband við lögregluna og þeir hafa verið beðnir að vera okkur innan handar með að kanna með ábyggilegum hætti hvert var upphaf eldsins, hverjir það voru. Síðan munum við kanna möguleika þess að það verði skoðað hvort sveitarfélagið eigi einhvern rétt á hendur þeim sem valda svona tjóni því að þarna getur kostnaður hlaupið á milljónum við slökkvistarf,“ segir Ómar.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík.
Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík. mynd/bb.is
Sviðin jörð í tanganum við vatnið þar sem eldur hefur …
Sviðin jörð í tanganum við vatnið þar sem eldur hefur ítrekað brotist út vegna glóða í sverðinum. Ljósmynd/Ómar Már Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert