Sprengjuhelt hús á varnarsvæðinu til sölu

Húsið er 1700 fermetrar að stærð.
Húsið er 1700 fermetrar að stærð. mbl.is

Á reit þar sem varnarliðið í Keflavík hafði aðsetur er hús til sölu sem útbúið er til þess að standa af sér árásir. Auk þess er hægt er að dvelja í því í lengri tíma án þess að þurfa að sækja sér vistir.

„Þetta er það sem þeir kalla „blast proof“ og þolir ákveðnar sprengjur. Inni í húsinu eru sértilgerðar síur og vatnstankur sem gerir það að verkum að hægt er að loka sig af í sex til níu mánuði,“ segir Óli Örn Eiríksson starfsmaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

Allar samskiptaleiðir í gegnum húsið

Húsið var byggt árið 1997 fyrir Atlantshafsbandalagið. Húsið er gluggalaust og á því eru metra þykkir steinsteyptir veggir auk þess sem við innganginn er hálfs metra þykk stálhurð. Húsið var samskiptamiðstöð hersins og ávallt var mikils öryggis gætt í kringum bygginguna á meðan varnarliðið starfaði hér. Allar samskiptaleiðir bandaríska hersins hér á landi lágu í gegnum húsið.

Í því er loftþrýstibúnaður til að koma í veg fyrir að hættuleg efni á borð við lífefnavopn geti borist inn í það. Það er stálklætt að innan og skermað þannig að rafeindatruflanir eiga ekki að berast í tækin sem voru þar. Inni í húsinu er ekkert farsímasamband 

Húsið er í eigu ríkissjóðs en er í umsýslu Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Það kostaði um milljarð í byggingu og er til sölu eða leigu. Óli Örn á hins vegar ekki von á því að upp í byggingakostnað náist. Frekar á hann vona á veglegum afslætti þar sem gera megi ráð fyrir því að þeir aðilar sem kaupi húsið vilji gera á því breytingar. 

„Húsið væri til að mynda hægt að nýta sem gagnaver eða gullgeymslu,“ segir Óli Örn. Einhver félög hafa sýnt húsinu áhuga að sögn hans. Meðal annars sem geymslurými fyrir listaverk og rafræn gögn.

Byggt vegna nýrra staðla

Húsið er á tveimur hæðum skiptist í nokkur herbergi. Stærð þess er 1700 fermetrar. Það var byggt eftir að upp voru teknir nýir staðlar í Atlantshafsbandalagsins sem sögðu til um að stjórnstöðvar ættu að vera í hertum byggingum sem gætu staðir af sér árásir.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka