Haldinn var starfsmannafundur í hádeginu í dag með starfsmönnum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til að ræða samruna þessara ráðuneyta inn í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hinn 4. september næstkomandi.
Á vegum ráðuneytisins er starfandi stýrihópur ráðuneytisstjóranna þriggja, Kristjáns Skarphéðinssonar, ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu, Sigurgeirs Þorgeirssonar, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og Helgu Jónsdóttur, ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Kristján er formaður hópsins.
„Það var starfsmannafundur í hádeginu og síðan vorum við að vinna í 6-7 vinnuhópum. Þeir verða að vinna fram til 15. ágúst og síðan verður það sem kemur út úr þeirri vinnu nýtt til að setja nýtt skipulag fyrir ráðuneytið. Í framhaldinu hefst vinna við gerð skipurits fyrir ráðuneytið,“ sagði Kristján um það sem fram fór á fundinum í dag.
Á fundinum kom fram, líkt og kveðið var raunar á um í þingsályktunartillögu um málið, að öllum starfsmönnum ráðuneytanna yrði boðin vinna áfram. Þetta staðfestir Kristján og segir: „En svo náttúrlega er ekki þar með sagt að það verði allir sem fái nákvæmlega eins störf og þeir eru í í dag, en það var það sem var gengið út frá, að allir fái starf.“
Það er búið að ákveða að nýtt ráðuneyti taki til starfa 4. september næstkomandi. Kristján segir talað um að 20. september verði allir starfsmenn fluttir í sama húsnæðið á Skúlagötu 4, þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er í dag.
Eins og áður hefur verið fjallað um standa yfir breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þegar nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verður sett á fót verða auk þess til tvö önnur ný ráðuneyti.
Annars vegar umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem að stofninum til er núverandi umhverfisráðuneyti. Hins vegar fjármála- og efnahagsráðuneyti, en hluti af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu færist yfir til þess.
Nokkur flutningur verkefna mun því eiga sér stað þegar þessi stóra breyting á skipan stjórnarráðsins verður í haust.