Störfin séu komin til vera

Forstjóri Vinnumálastofnunar telur að verslun- og þjónusta sé að taka …
Forstjóri Vinnumálastofnunar telur að verslun- og þjónusta sé að taka við sér. mbl.is/Eggert

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, kveðst nokkuð bjartsýnn á að í haust og í vetur verði áfram þörf fyrir þann starfskraft sem hafi fengið vinnu í vor og í sumar. Hann telur að verslunar- og þjónustugeirinn sé að taka við sér og þar séu að verða til störf sem hurfu í kjölfar hrunsins.

Hann segir í samtali við mbl.is, að það sé hins vegar erfitt að segja til um það með vissu hvort atvinnulífið sé að rétta úr kútnum eður ei.

„Við höfum ekki gert aðrar áætlanir en þær að atvinnuleysi muni síga aðeins upp á við yfir vetrarmánuðina, en það er þá í takt við árstíðasveifluna,“ segir Gissur.

Atvinnuleysi er jafnan minnst yfir sumarmánuðina en í júní mældist atvinnuleysið 4,8%. Í lok vikunnar er von á nýjum tölum frá Vinnumálastofnun fyrir júlímánuð og á Gissur von á að atvinnuleysið í júlí verði um 4,9%.

Vonbrigði fari atvinnuleysið yfir 7%

Gissur segir að það hafi dregið hraðar úr atvinnuleysi í ár en sama tíma í fyrra. „Það gefur okkur vísbendingu um að það sé raunveruleg eftirspurn eftir vinnuafli og henni þurfum við að mæta með fólki sem er að leita sér að störfum.“

Miðað við björtustu spár vonar Gissur að atvinnuleysið í vetur fari ekki mikið yfir 6%. „Það yrðu mjög mikil vonbrigði ef atvinnuleysið færi yfir 7% í vetur.“

Þá segir Gissur að þær vísbendingar sem menn hafi séð að undanförnu bendi til þess að atvinnulífið sé að rétta úr kútnum og atvinnuleysi að dragast saman.

„Það sem kæmi á óvart og yrði ákveðin vonbrigði er ef þessi störf sem hafa orðið til núna reynast ekki vera til frambúðar,“ segir Gissur.

„Við erum styrkja atvinnulífið til að ráða fólk til sín. Við treystum því að þetta skapi af sér ákveðinn virðisauka í atvinnulífinu sem menn vilji ekki vera án,“ segir Gissur að lokum.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert