Vegakerfi landsins er víða komið að þolmörkum hvað umferðaröryggi varðar. Hefur Vegagerðin fengið margar kvartanir í sumar frá vegfarendum yfir slæmum vegum, einkum holóttum og grófum malarvegum en einnig holum og ójöfnum í slitlagi.
„Það þarf ákveðið fjármagn til að halda vegakerfinu í horfinu og eftir hrun hefur dregið verulega úr því. Hægt er að lifa við það í einhvern tíma en þetta er eins og í heilbrigðiskerfinu og víðar. Á endanum fer eitthvað að láta undan. Ef burðarlag veganna brotnar er mjög kostnaðarsamt að byggja það upp aftur. Þetta getur orðið erfiðara og dýrara er frá líður ef vegirnir fá ekki reglulegt og fyrirbyggjandi viðhald,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri um ástand vegakerfisins.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segist Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skilja vel áhyggjur Vegagerðarinnar. Farið hafi verið eftir tillögum þaðan um að flytja framlög til nýframkvæmda yfir í viðhald og þjónustu.