Verulega hlýtt á Austurlandi

Skapti Hallgrímsson

Mikil hlýindi eru á Austurlandi og um tíuleytið í morgun var hitinn kominn í 25,4 stig í Neskaupstað, 25,3 stig á Kollaleiru í botni Reyðarfjarðar og 24,6 stig á Seyðisfirði. Að sögn veðurfræðings má búast við enn meiri hlýindum á Austurlandi um miðjan dag þegar sólin er hæst á lofti.

Þau gerast vart meiri hlýindin á landinu, segir Einar Sveinbjörnsson á bloggi sínu á mbl.is í morgun. Þá upplýsir Einar að hitinn hafi farið í 23 stig á Dalatanga í snarpri vestangolu í stutta stund á milli kl. tvö og þrjú síðastliðna nótt.

Lægsti hiti sem mældist á Akureyri í nótt var 17,5 stig á miðnætti. Þar var hitinn kominn í 21,3 stig klukkan 10 í morgun.

Jafnframt er hlýtt víða á Norðurlandi en þar er hins vegar mikill vindhraði. Á Holtavörðuheiði er stormur og vindhraði 23 metrar á sekúndu. Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, varar fólk við að vera á ferð með tengivagna á Norðurlandi og á Vestfjörðum þar sem hvassast er.

„Það verður hlýtt í dag og á morgun norðan- og austanlands. Að vísu fylgir þessu nokkur vindur og búast má við einhverju sandfoki. Jafnframt verður nokkur vindur á Vestur- og Norðvesturlandi. Búast má við því að það lægi með kvöldinu. Það er rétt að vara fólk við því að vera á ferð með tengivagna á þessum stöðum þar sem vindur er mikill. Við fengum tilkynningu áðan frá manni sem var fastur við Bifröst á bíl með tengivagni. Hann var á leið norður,“ segir Þorsteinn.

Súldarloft verður á Suður- og Suðvesturlandi að sögn Þorsteins en nokkuð hlýtt í veðri. „Það verður hlýtt um allt land fram í næstu viku. Sérstaklega á Norður- og Austurlandi þar sem einhver sól gæti skinið inni á milli,“ segir Þorsteinn.

Hitamet á Íslandi var sett á Teigarhorni 22. júní árið 1939 og var 30,5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert