„Mér er meinað að fá skýrsluna þótt menntamálaráðuneytið hafi vísað í hana á vefsíðu sinni á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi og þótt fjölmiðlar séu meira og minna komnir með hana.“
Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í kjölfar þeirrar ákvörðunar stjórnarformanns Austurhafnar í gærkvöldi að afgreiða ekki strax beiðni hans um að fá skýrslu KPMG um rekstur Hörpu.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að hann fékk það svar að beiðnin yrði tekin fyrir á stjórnarfundi 17. ágúst. Skýrslan var tilbúin í lok maí og óskaði Kjartan eftir því í júlí við Austurhöfn að fá skýrsluna.
„Það er skrítið að meðferðin á almannafé í þessu fyrirtæki skuli ekki vera betri en þetta þegar menn koma svona fram við kjörna fulltrúa sem eiga að gæta almannafjár,“ segir Kjartan sem kveðst „furðu lostinn yfir þessari ósvífnu framkomu“.