ESB standi fast á sjávarútvegskröfum sínum

mbl.is/Hjörtur

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætti að standa fast á kröfum sínum varðandi fiskveiðar og hvalveiðar í viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið hvað sem það kunni að fá í staðinn. Þetta segir Stephen Tindale hjá bresku hugveitunni Centre for European Reform í grein sem birtist á vefsíðunni Publicserviceeurope.com í gær.

Tindale segir að ef gerðar yrðu minni kröfur til nýrra aðildarríkja ætti það eftir að koma í bakið á ESB síðar. Ef staðfesta sambandsins yrði hins vegar til þess að Íslendingar höfnuðu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði einfaldlega svo að vera. Þá leggur hann einnig áherslu á að ESB gefi ekki mikið eftir í makríldeilunni.

Varðandi hvalveiðar segir Tindale að Íslendingar haldi því fram að veiðar þeirra séu sjálfbærar en það sé þó aðildarviðræðunum óviðkomandi. Lög ESB banni dráp á hvölum jafnvel þó að stofnar þeirra séu fjölmennir líkt og í tilfelli hrefnunnar. Lögin séu að hluta til byggð á mikilvægi þess að tryggja líffræðilega fjölbreytni og einnig að hluta á því að vernda dýrin frá kvalafullum dauðdaga.

Íslendingar haldi því ennfremur fram að hvalveiðar séu hluti af menningu þeirra. Menning sé mikilvæg og Evrópusamrunanum beri að virða flestar gerðir menningar en ekki þó þær sem byggjast á grimmd. Það ætti að vera hægt fyrir Íslendinga að aðskilja menningu sína hvalveiðum á 21. öldinni. Sé það ekki hægt ætti aðild að ESB ekki að vera í boði.

Tindale rifjar upp að Ísland hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar bankahrunsins og að litið hafi verið á aðild sem leið til þess að tryggja stöðugleika í landinu. Sú væri hins vegar ekki lengur raunin og helsta hindrunin í vegi þess að Ísland gangi í sambandið sé nú sú að Íslendingar eigi líklega eftir að hafna aðild í þjóðaratkvæði.

Grein Stephen Tindale

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert