Flókið að greina ADHD

Greining á ADHD er vandmeðfarin.
Greining á ADHD er vandmeðfarin. mbl.is/ÞÖK

Hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) er verið að skoða hvort hægt sé að nota tæki á borð við heilarit til að greina athyglisbrest og ofvirkni (ADHD). „Hér á landi fá börn greiningu á ADHD hjá mismunandi aðilum og það er líklegt að greiningartæki og vinnubrögð séu mismunandi og þess vegna áreiðanleiki greininganna,“ segir Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir á BUGL. Heilaritinn hefur m.a. verið notaður til snemmgreiningar á Alzheimers.

Hann segir ekkert eitt greiningartæki til en almennt byggist greining á ADHD hjá börnum á ítarlegri upplýsingaöflun frá foreldrum og öðrum í kringum barnið, skoðun á barninu og útfyllingu á matslistum þar sem er hægt að bera niðurstöðuna saman við „norm“ heilbrigðra barna. „Þessi ítarlega sjúkrasaga með þroskasögu og fleira í þeim dúr er grunnurinn og leiðbeinandi fyrir fagmanninn til að fókusera nánar á hvað um geti verið að ræða,“ segir Ólafur.

Mikil skörun einkenna við aðrar raskanir

Í frétt á mbl.is í gær sagðist Gréta Jónsdóttir uppeldisráðgjafi þekkja mörg dæmi þess að börn hefðu verið ranglega greind með ADHD og í kjölfarið sett á lyf á borð við rítalín, concerta og strattera. Oft væru börnin í raun með kvíðaröskun, áfallastreituröskun, glímdu við kvíða eða þunglyndi en einkennin væru svipuð þeim sem kæmu fram hjá börnum með ADHD. Ólafur segir að hafa þurfi í huga að ADHD greining sé ekki endanleg en meirihluti barna sem greinist með röskunina sé ekki lengur með hana þegar komið er á fullorðinsaldur. „Það er mögulegt að barn uppfylli greiningarskyldu ADHD til einhvers tíma, eins til tveggja ára, og þroskist síðan frá röskuninni. Þá á greiningin ekki lengur við og ekki lengur ástæða til meðferðar.“ Fylgja þurfi börnum vel eftir sem fái ADHD greiningu, sem og aðrar geðgreiningar. „Það er vissulega pottur brotinn hér á landi og víðar því framboð á þjónustu fyrir þennan hóp er mjög takmarkað og við erum meðvituð um að möguleiki til eftirfylgni er sprunginn. Það eru því miður of mörg börn sem eru í ónógu eftirliti með þeirri meðferð sem þau eru að hljóta. Það er alveg víst.“

Hluti þeirra sem greinist með ADHD glími við röskunina til lengri tíma. „Greiningin er vandmeðfarin og það er mikil skörun einkenna við aðrar raskanir, ekki síst kvíðaraskanir, áfallastreituröskun eins og [Gréta] nefnir, og tengslaröskun. Ég hef stundum haft áhyggjur af því að tengslaröskun sé vangreind hér á landi og hugsanlegt að börn séu frekar greind með ADHD. Það er vissulega svo að ADHD hefur verið mikið í sviðsljósinu hjá fagfólki, skólakerfinu og foreldrum og oft lögð áhersla á að svara þeirri spurningu hvort barnið sé með ADHD eða ekki þannig að það er vissulega góð ábending að fagfólk þarf að vera á varðbergi gagnvart mismunagreiningu, þ.e.a.s. að ýmsar mögulegar greiningar séu skoðaðar en ekki einblínt á eina,“ segir Ólafur.

„Alls ekki einfalt mál að greina barn með ADHD“

Einnig þurfi að hafa í huga að um 70% þeirra sem greinist með ADHD séu einnig með aðrar raskanir. Þannig snúist meðferðin um víðfeðmari nálgun því oft séu ýmis sértæk þroskafrávik undirliggjandi. „Það geta verið aðrar geðraskanir líka, t.d. kvíðaraskanir eða þunglyndi, það getur verið vandamál á einhverfurófi auk ýmissa félagslegra atriða varðandi fjölskylduaðstæður og þann stuðning sem barnið nýtur í daglega lífinu, bæði heima og í skóla,“ segir Ólafur. „Það er alls ekki einfalt mál að greina barn með ADHD.“

Í viðtalinu við Grétu í gær sagði hún myglusvepp, þungmálmaeitrun, ýmiss konar mataróþol og skort á bætiefnum geta framkallað sömu einkenni og ADHD. Ólafur segir að fjölmörg ólík einkenni hafi verið rakin til myglusvepps, eflaust fleiri en hann raunverulega framkalli, en aftur á móti hafi ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar varðandi mataræði, skort á bætiefnum og viðbótarefni í fæðu. Meginniðurstaðan sé sú að hjá mjög lágu hlutfalli þeirra sem greinist með ADHD komi í ljós að einkennin megi rekja til þriggja fyrrgreindra þátta. „Mataræði skiptir samt máli og menn hafa verið að rannsaka ýmislegt áhugavert þar, t.d. varðandi sykur og fjölómettaðar fitusýrur og fleira í þeim dúr en niðurstöður hafa ekki gefið til kynna að breyting á þessum þáttum hafi nægjanlegt gildi til að það sé ráðlagt sem meðferð.“

Þá sé ekki alveg rétt að tala um að lyf við ADHD virki á börn sem glími við aðrar raskanir en aftur á móti í skemmri tíma. „Þessi lyf hafa áhrif á alla sem taka þau en hjá þeim börnum sem ekki eru með ADHD eru þau svo lítil að börnin hafa í raun enga gagnsemi af þeim.“

Líklegt að um vangreiningu sé að ræða

Gréta sagði að víða um heim væri staðlaður spurningalisti, CAPS-CA, notaður til að skera úr um hvort börn séu með áfallastreituröskun. Aðspurður segist Ólafur telja gagnlegt að slíkur listi yrði lagður fyrir þegar verið sé að greina hvort börn séu með ADHD, en eins og fyrr segir sé mjög misjafnlega staðið að greiningunum. „Mörg þessara barna eru fá greiningu í stuttum viðtölum á einkastofum þar sem aðstaða til nægjanlegra upplýsingaöflunar og greiningarvinnu er takmörkuð en ég get sagt hvað varðar hér á BUGL þá er töluverð vinna lögð í greiningarvinnu, m.a. með ítarlegu greiningarviðtali og spurningalistum, t.d. varðandi einkenni tengslaröskunar og áfallastreituröskunar.“

Vandamálið með þessar raskanir sé aftur á móti það að þær geri ráð fyrir ákveðnum orsakaþáttum og tímasamhengi. „Hvað áfallastreituröskun varðar þá er gert ráð fyrir að einkenni hafi komið fram innan við sex mánuðum frá áfallinu en það getur verið erfitt að meta hjá t.d. 10 ára barni hvaða áhrif áfall sem það varð fyrir þegar það var 3 eða 5 ára hefur á það vandamál sem barnið á við að stríða í dag.“ Um sé að ræða erfiðar greiningar. „Mér finnst líklegt að þarna geti verið um vangreiningu að ræða og [Gréta] hafi svolítið fyrir sér í því en það þyrfti að gera rannsóknir á því til að hægt væri að fullyrða um það.“

Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir á BUGL.
Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir á BUGL. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert