Flytja þarf lyklafrumvarpið á nýjan leik

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við fjölluðum töluvert um frumvarpið í nefndinni og það var mikill áhugi á því að reyna að fara sem lengst með það en við náðum þó ekki lengra með það en þetta,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, spurður út í stöðuna varðandi svonefnt lyklafrumvarp sem Lilja Mósesdóttir alþingismaður og fleiri þingmenn fluttu á síðasta þingi.

Frumvarpið felur það einkum í sér að krafa lánveitanda á lántaka vegna fasteignar til búsetu skuli falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu á henni nægir ekki til greiðslu kröfunnar. Þá er einnig kveðið á um það í frumvarpinu að lánveitanda sé „ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum“.

Björgvin segir aðspurður að þar sem frumvarpið hafi ekki verið afgreitt á síðasta þingi þýði það að flytja þurfi það aftur á næsta þingi sem sett verður í október næstkomandi. Hann segist gera ráð fyrir að það verði gert og þá standi sú vinna sem unnin hafi verið í nefndinni komi fumvarpið aftur inn á borð hennar.

„Ég hafði sjálfur mikinn áhuga á að fara með þetta eins lagt og hægt var og kom þessu inn á dagskrá aftur og aftur. En við náðum því miður ekki að ljúka því að þessu sinni,“ segir Björgvin en síðast var fundað um frumvarpið í allsherjar- og menntamálanefnd 7. júní síðastliðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert