Mbl.is hlaut í kvöld Mannréttindaviðurkenningu Samtakanna '78 árið 2012, á opnunarhátíð Hinsegin daga í Háskólabíói. Þetta er í sjötta sinn sem verðlaunin eru veitt og er MBL-Sjónvarp verðlaunað fyrir gerð þátta um samkynhneigða og transfólk.
Verðlaunin eru í þremur flokkum og sagði Guðmundur Helgason, formaður Samtakanna '78, við afhendinguna að með þessu vildu samtökin þakka þeim fjölmörgu sem sinntu mannréttindabaráttu hinsegin fólks og legðu þannig sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betri heimi.
Vakti athygli á málefnum hinsegin fólks
Mbl-Sjónvarp er verðlaunað í flokknum Hópur, félag eða fyrirtæki. Í umsögn dómnefndar segir að lykillinn að baráttu gegn hómófóbíu, bi-fóbíu og transfóbíu sé fyrst og fremst fræðsla, fræðsla og fræðsla. Hinsegin fólki barst góður liðsauki í þeirri baráttu þegar Mbl-sjónvarp hóf gerð þátta fyrir vefinn.
„Fyrst komu þættir sem kölluðust „Út úr skápnum“ þar sem samkynhneigðir sögðu reynslusögur sínar af því að koma útúr skápnum. Nú í sumar höfum við svo fylgst með transfólki í þáttunum TRANS, hvað það þýðir að vera trans og ferlið sem transgender einstaklingar þurfa að ganga í gegnum í baráttunni fyrir betra lífi.“
Dr. Óttar Guðmundsson verðlaunaður
Í flokknum Einstaklingur utan félags hlaut verðlaun í kvöld dr. Óttar Guðmundsson, læknir á Landspítalanum, sem hefur síðustu áratugi fylgt transfólki í gegnum ferlið til kynleiðréttingar.
„Í gegnum starf sitt hefur hann orðið öflugur talsmaður bættrar réttarstöðu transfólks og talað fyrir umbótum í málsmeðferð transgender einstaklinga. Hann sat í nefnd velferðarráðherra sem samdi nýsamþykkt frumvarp um réttarstöðu transfólks og er vafalaust sá einstaklingur innan heilbrigðiskerfisins sem hvað mesta þekkingu hefur á málefninu,“ segir í umsögn dómnefndar.
Anna K. Kristjánsdóttir ruddi veginn
Loks hlaut viðurkenningu Anna K. Kristjánsdóttir, sm hefur verið mjög áberandi í umræðunni um transfólk og öflugur talsmaður réttarbóta þeim til handa. Í umsögn dómnefndar segir að Anna hafi þannig orðið „andlit sem almenningur kannast við og tengir við umræðuna um málefni transfólks“.
„Hún tók virkan þátt í baráttumálum transfólks í Svíþjóð fyrir síðustu aldamót, en hefur einnig starfað í stjórn Evrópsku transgendersamtakanna, Samtakanna '78 og tók þátt í stofnun Trans-Ísland sem svo valdi hana sem sinn fulltrúa í nefnd velferðarráðherra um réttarstöðu transfólks, þá sömu og skilaði svo frumvarpinu góða og Alþingi samþykkti sem lög núna á vormánuðum. Hún hefur þannig rutt veginn fyrir þá sem á eftir koma og ásamt öðrum lagt grunninn að bættum réttindum til handa transfólki.“