Gæti staðið í nokkra daga í viðbót

Sinueldur. Myndin tengist eldinum við Laugardal ekki beint.
Sinueldur. Myndin tengist eldinum við Laugardal ekki beint. Kristján Kristjánsson

Sinueldur í Laugardal á Vestfjörðum lifir enn. 25 manns börðust við eldinn nú undir morgun. Eldurinn nær yfir 4-5 hektara svæði að sögn slökkviliðsstjóra Ísafjarðarbæjar.

„Það eru 25 manns í slökkvistarfi núna. Þetta eru hins vegar allt áhugamenn sem annaðhvort þurfa að komast til síns heima eða til í vinnu og því verðum við ekki nema rúmlega tíu í byrjun dags,“ segir Þorbjörn Jóhann Sveinsson, slökkviliðsstjóri á Ísafirði.

Sameiginlegt slökkvilið Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Súðavíkur glímir við eldinn en Þorbjörn telur að það gæti tekið nokkra daga til viðbótar að slökkva hann. „Eldurinn er stöðugur eins og er en ef vindátt breytist gæti hann blossað upp aftur. Þyrla Landhelgisgæslunnar hjálpaði okkur í gær og það gekk vel á meðan hennar naut við. Við vitum ekki hvort við fáum að notast við hana í dag,“ segir Þorbjörn.

Hann segir slökkvilið á Vestfjörðum ekki vant að glíma við svona sinueld. „Það eru margir annars staðar á landinu vanari að glíma við svona sinuelda og við fáum ráðleggingar frá þeim. Enda er þetta mjög stórt svæði sem við glímum við,“ segir Þorbjörn.

Eldurinn hefur lifað frá því á föstudag.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hjálpaði til við slökkvistarf.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hjálpaði til við slökkvistarf. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert