Snéru við vegna veðurs

Saga Sapphire
Saga Sapphire Af vef BB

Áhöfn skemmtiferðaskipsins Saga Sapphire hætti við að ferja farþega í land á Ísafirði í morgun vegna veðurs. Hefur það því snúið á brott, að því er fram kemur í frétt á vef Bæjarins besta. Skipið lá við akkeri við Prestabugt en að sögn Guðmundar M. Kristjánssonar hafnarstjóra gat skipið ekki lagst að bryggju vegna þess að það var of djúprist.

„Þetta er gamalt skip og það sama og gildir um flest þessi skip sem liggja við akkeri að þau eru of djúprist.“

Hann segir hvassviðri vera ástæðu þess að ekki var talið ráðlegt að ferja fólkið í land. „Margir farþeganna eru eldra fólk og ekki gott að vera að fara með það í land þegar sjórinn lætur illa.“ Þess í stað brá áhöfnin á það ráð að fara í útsýnisferð um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert