200 lítrar af súpu í þvottapottum

„Ég horfi út um eldhúsgluggann hjá mér og biðröðin er hér meðfram öllum gaflinum, yfir Mímisveginn og ég sé ekki fyrir endann á henni," segir Ragnheiður Friðgeirsdóttir, sem eys nú súpu í skálar eins og hún eigi lífið að leysa fyrir gesti og gangandi á Dalvík, á árlegu fiskisúpukvöldi. Á morgun er svo fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli á Dalvík. 

200 lítrar af súpu í gömlum þvottapottum

„Það byrjaði nú þannig að rétt áður en við kveiktum undir hellirigndi og við vorum alveg niðurbrotin. En svo náttúrlega stytti upp, því almættið er bara þannig að við erum á sérsamningi og nú er veðrið yndislegt, held að það sé 16-17 stiga hiti," segir Ragnheiður sem hefur þó ekki mikinn tíma til að njóta veðurblíðunnar því hún stendur sveitt yfir pottunum í eldhúsinu. 

„Þetta eru 200 lítrar af súpu, viið erum með tvo stóra rafmagnsþvottapotta, svona eins og hvíti þvotturinn var þveginn í í gamla daga. Svo eru bara fjórir að ausa, einn er í því að skammta brauð og annar setur rækjur í súpuna. Þannig að þetta gengur mjög hratt fyrir sig hjá okkur."

Útlendingarnir eiga ekki orð

Þeir sem standa aftastir í röðinni löngu ættu því ekki að þurfa að örvænta. „Svo tókum við upp á því að líma hérna á húsvegginn brandara og kynningu á heimilisfólki, svo fólk hafi eitthvað að gera á meðan það bíður." Ragnheiður hefur varla tölu á því hve margir hafa þegið af henni fiskisúpu síðan kveikt var á kyndlunum kl. 20.15, til marks um að gestir væru velkomnir, en hún segir að flestir ef ekki allir séu utanbæjarfólk og þar af töluvert um útlendinga. Hróður fiskisúpunnar berst því víða. 

„Ég er búin að hitta Dana, Frakka, Breta og Hollending og þeir alveg eiga ekki orð yfir þessu. Svo var Færeyingur hérna með okkur frá færeyskri sjónvarpsstöð, sem var að gera heimildarþátt um þessa fiskidagshelgi. Hann kom til okkar að taka upp undirbúninginn á súpunni og vildi sjá þegar við settum fiskinn út í rétt fyrir kl. 20 og kveiktum á kyndlunum. Svo er líka svo gaman í þessu að maður er búinn að kynnast fólki sem kemur ár eftir ár, þannig að þetta er alveg yndislegt."

Margir smala fjölskyldunni í fiskisúpu

Ragnheiður hefur tekið þátt í fiskisúpukvöldinu frá upphafi og er þetta því 8. skiptið sem hún stendur við pottana og hún hyggur á þátttöku aftur að ári. „Stundum segir maður, „guð, þetta var í síðasta skiptið núna," en svo eftir á þá er þetta svo gaman að maður bara tímir ekki að hætta. Fólk er svo þakklátt, þetta er eins og maður sé að gera risa góðverk og ég tel mig reyndar vera að gera það, að standa í tvo daga og elda," segir Ragnheiður og hlær. 

Hún neitar því ekki að mikil vinna liggi að baki þessu kvöldi og þakkar börnum sínum, tengdabörnum og mági fyrir að gera henni þetta kleift. „Þetta er rosavinna og gengi aldrei ef einhverjir tveir eða fjórir ætluðu að vera í þessu. En margir nota líka kvöldið sem hálfgert ættarmót, fólk hittist og er með súpu fyrir fjölskylduna bara án þess þó að kveikja á kyndlum og bjóða inn fólki af götunni."

Fólki skemmti sér og borði fisk

Ragnheiður segir að slökkt verði undir pottunum kl. 22.15. „Það er að segja ef ég hef nóg og þrauka allan tímann, það er aðalkeppikeflið að geta gefið öllum að borða en að sjálfsögðu náum við því ekkert alltaf."

Markmið fiskihátíðarinnar á Dalvík er að fólk komi saman, skemmti sér og borði fisk. Dagskrána í ár má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert