Alls komu 22 kynferðisbrotamál til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum á síðasta ári sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Mikil áhersla hefur verið lögð á það hjá embættinu að vanda til rannsókna kynferðisbrota og af sex starfsmönnum rannsóknardeildar eru tvær rannsóknarlögreglukonur sem mun vera hæsta hlutfall kvenna í deild sem rannsakar kynferðisbrot hér á landi, segir í ársskýrslu lögreglustjórans á Suðurnesja.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 komu 18 kynferðisbrot til meðferðar. Sex þeirra voru nauðgunarmál og var meðalmeðferðartími þeirra rúmir 87 dagar sem er mun lengri tími heldur en sá tími sem rannsókn slíkra mála tók árið á undan.
Líkamsárásarmálum fjölgaði á milli ára en 82 mál komu til rannsóknar samanborið við 69 árið 2010. Hins vegar fækkaði alvarlegum brotum á milli ára.