Norðurorka beinir þeim tilmælum til viðskipta sinna að fara áfram sparlega með kalda vatnið en síðdegis í gær fór vatn í miðlunargeymum Norðurorku niður fyrir öryggismörk sem þýðir að ákveðið vinnuferli fer í gang sem m.a. felur í sér að viðskiptavinir eru beðnir að spara vatn, auk þess sem farið er yfir allar mælingar, kerfið rýnt og allir þættir í öflun og notkun metnir. Sérstaklega er rætt við stórnotendur og þeir beðnir að gæta að sinni notkun.
„Ljóst er að það er fyrst og fremst mikil notkun bæjarbúa sem ræður mestu um þetta ástand, en ekki bætir úr skák að nokkuð hefur dregið úr afköstum vatnsbóla á Glerárdal og í Hlíðarfjalli (15-20% minna en í meðalári).
Rétt er hins vegar að geta þess sérstaklega að afköst vatnsbóla í Vaðlaheiði, sem þjóna suðurhluta Svalbarðsstrandarhrepps, hafa minnkað mun meira eða um allt að 70%. Hefur húseigendum og fyrirtækjum þar því verið ritað sérstakt bréf af þessu tilefni.
Eftir tilmæli Norðurorku í gær hefur þegar dregið úr notkun og viljum við þakka bæjarbúum fyrir skjót viðbrögð. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi tilmæli standa enn og viðskiptavinir því beðnir að bíða með vökvun lóða og opinna svæða. Þá eru á heimasíðu félagsins einnig talin upp ýmis góð ráð sem fela í sér sparnað í vatnsnotkun. Í því sambandi ber að hafa í huga að margt smátt gerir eitt stórt og ef allir hjálpast að ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af beinum vatnsskorti,“ segir í tilkynningu frá Norðurorku.