Stundakennara við guðfræðideild Háskóla Íslands hefur verið gert að hætta eftir að í ljós koma að hann hafði ekki doktorspróf eins og hann hafði sjálfur haldið fram. Kennarinn hafði kennt við deildina í nokkur ár og jafnan haldið því fram að hann væri með doktorspróf. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.
Við eftirgrennslan kom hins vegar í ljós að stundakennarinn hafði aldrei lokið doktorsprófi. Vitað var að hann hafði verið í doktorsnámi og þegar hann sagðist hafa lokið því var hann tekinn trúanlegur. Kennarinn gekkst strax við því að hafa gefið rangar upplýsingar og mun ekki aftur gegna stundakennslu við Háskóla Íslands.
Stundakennarinn fyrrverandi verður ekki kærður, þar sem hann bauðst til að endurgreiða ofgreidd laun vegna prófsins sem hann hafði ekki. Þá leiddi könnun háskólans í ljós að ekki var lagagrundvöllur fyrir að kæra hann fyrir að veita rangar upplýsingar um menntun sína, að því er fram kom í fréttum RÚV.