Laus hundur réðst á kött og drap

Kötturinn Funi var norskur skógarköttur.
Kötturinn Funi var norskur skógarköttur. Ljósmynd/úr einkasafni

Hundur sem slapp laus og hljóp frá heimili sínu réðst að ketti í Vesturbænum á miðvikudag og drap hann. Eigendur kattarins kærðu atvikið til lögreglu og kom þá í ljós að sami hundur hefur áður drepið kött. Samkvæmt nýrri samþykkt um hundahald í Reykjavík má aflífa hund án frekari viðvarana hafi hann bitið tvisvar eða oftar eða valdið skaða. 

Aðfarirnar hrikalegar

Hundurinn sem um ræðir er af tegundinni Siberian Husky. Árásin átti sér stað skammt frá heimili kattarins í Vesturbænum en hundurinn kom úr öðru hverfi. Kötturinn Funi var á ferð á einkalóð og fylgdust íbúarnir með því þegar ókunnugur hundur kom skyndilega hlaupandi inn í garðinn, réðst á Funa og drap hann.

Íbúarnir náðu mynd af hundinum og létu eigendur kattarins vita og hvöttu þá jafnframt til að kæra atvikið til lögreglu. Þegar það var gert kom í ljós að lögreglu hafði áður borist tilkynning um kött sem þessi sami hundur réðst á og drap. Þetta þýðir að heimilt er að aflífa hundinn, samkvæmt nýrri samþykkt um hundahald í Reykjavík frá 16. maí 2012. Þar segir í 19. grein, um grimma, varasama og hættulega hunda, að hafi hundur bitið tvisvar eða oftar og/eða valdið skaða megi aflífa hann án frekari viðvarana.

Tilfinningalegt tjón ekki bætt

Konan sem átti Funa ásamt sambýlismanni sínum segir að þau muni fá greiddar bætur úr skyldutryggingu eigenda hundsins, en það sé sárt að missa gæludýrið sitt með þessum hætti. „Við fáum bætur vegna þess að við keyptum þennan kött, sem var hreinræktaður og við getum sýnt fram á hvað hann kostaði okkur. En það eru auðvitað margir sem fá kettina sína gefins eða úr Kattholti og ef svo væri þá fengjust engar bætur, þrátt fyrir tilfinningalegt tjón.“

Hún segist líka finna til með eigendum hundsins. „Það er ótrúlega leiðinlegt fyrir þau að hundurinn þurfi að deyja, en því miður þá hafa þau ekki gætt hans nógu vel. Svona hundur má ekki sleppa laus því það er ekki hægt að treysta honum.“

Góð gæludýr sé þjálfunin rétt

Nokkur mál hafa komið upp að undanförnu sem varða hunda af tegundinni Siberian Husky og var einn slíkur hundur m.a. aflífaður í apríl síðastliðnum, en hann drap tvo ketti í Grafarvogi í fyrra. Vegna umræðna sem spruttu upp í kjölfar þess og fleiri frétta af Husky-hundum tjáðu nokkrir eigendur Husky-hunda sig um jákvæða reynslu sína af hundunum sem gæludýrum. 

Á vef Wikipedia segir um Siberian Husky-hunda að ef hundar af þessari tegund séu vel þjálfaðir geti þeir verið frábær fjölskyldugæludýr. Þeir séu hændir að fólki, en jafnframt sjálfstæðir og þurfi því mikla þjálfun og stöðugt aðhald. Ráðlegt sé fyrir eigendur að gæta vel að því að þeir sleppi ekki lausir því þeim sé eðlislægt að hlaupa og geti verið stungnir af á augabragði. Einnig segir að Siberian Husky-hundum leiðist auðveldlega og því þurfi að daglega að gefa þeim andlega og líkamlega útrás. Séu Siberian Husky-hundar ekki þjálfaðir rétt geti það leitt til óæskilegrar hegðunar. 

Hundar af gerðinni Siberian Husky
Hundar af gerðinni Siberian Husky Mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Kötturinn Funi að leik í Vesturbænum.
Kötturinn Funi að leik í Vesturbænum. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert