„Við vorum bara að leggja af stað frá Njarðvík til Hafnarfjarðar þegar þeir komu um borð,“ segir Aðalbjörn Jóakimsson í samtali við mbl.is en hann hafði samið við fyrirtækið Icebrit ehf. um að flytja flugvélaeldsneyti til Grænlands fyrir þarlent fyrirtæki að nafni Blue West Helicopters Greenland.
Til flutninganna var ætlunin að nota fiskiskipið Fram ÍS en áður en lagt var í leiðangurinn kom lögregla um borð í skipið fyrirvaralaust að sögn Aðalbjörns og bann lagt við því að skipið annaðist flutningana. Hann segir að auk lögreglu hafi Siglingastofnun meðal annars komið að málum. Sú skýring hafi aðeins verið gefin að Fram ÍS væri óheimilt að flytja eldsneytið þar sem það væri ekki flutningaskip. Taka átti eldsneytið um borð í Hafnarfirði og lá leiðin þaðan til Grænlands.
Í kjölfarið segist Aðalbjörn hafa frétt að Landhelgisgæslan ætlaði að sjá um að flytja eldsneytið til Grænlands á varðskipi að honum skiljist fyrir minni kostnað. Hann sjái ekki annan tilgang með þessu en að verið sé að útvega Gæslunni kostuð verkefni á kostnað lítils fyrirtækis. Aðalbjörn hefur sent Georg K. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, tölvubréf þar sem honum eru kynntir málavextir. Þar segir ennfremur að hann hyggist kæra málið til innanríkisráðuneytisins.
Brýtur í bága við alþjóðlega reglur
Að sögn Hermanns Guðjónssonar siglingamálastjóra fékk Siglingastofnun ábendingu um að til stæði að flytja flugvélaeldsneytið með fiskiskipi og var þeim upplýsingum í kjölfarið komið til útgerðar skipsins að slíkt væri ekki í samræmi við alþjóðlegar reglur um slíka flutninga enda hafi staðið til að flytja eldsneytið í lest þess. Ástæða þess að lögregla hafi mætt á staðinn hafi verið sú að talið hafi verið að eldsneytið hafi verið komið um borð í skipið sem síðan hafi reynst rangt.
Þá hafi Siglingastofnun haft samband við dönsku siglingastofnunina þar sem til hafi staðið að sigla inn í grænlenska lögsögu og þar hafi menn lagst alfarið gegn því að eldsneytið yrði flutt með þessum hætti. Hermann segir ennfremur að Siglingastofnun hafi verið öll af vilja gerð til þess að reyna að leysa málið, meðal annars að kanna möguleika á því að flytja minna magn en til hafi staðið á dekki Fram ÍS.
Hins vegar segist Hermann ekki geta svarað fyrir þátt Landhelgisgæslunnar í málinu. Það sé þó ljóst að ef Gæslan ætli að flytja eldsneytið þurfi hún að sjálfsögðu að uppfylla skilyrði sömu reglna.