Reykjavíkurborg brýtur í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stuðlar beinlínis að mismunun og refsingu barna vegna athafna foreldra eða lögráðamanna. Þetta segir Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi, vegna frétta um að börnum hafi verið meinuð þátttaka á frístundaheimilum borgarinnar vegna vangoldinna reikninga foreldra þeirra.
Sóley segir ekki útilokað að einhver börn hafi misst pláss í leikskólum vegna hins sama, en engu barni sé þó vísað frá mötuneytum grunnskóla borgarinnar þótt reikningar séu ógreiddir.
„Auðvitað á ekkert barn að vera svangt – og það væri óverjandi með öllu að vísa barni úr röðinni í skólamötuneytinu vegna vangoldinna reikninga foreldra sinna. Það er óverjandi ef barn missir hluta úr leikskólagöngu sinni vegna vangoldinna reikninga foreldra sinna. Og það er óverjandi að 6 ára barn megi einn góðan veðurdag ekki fylgja félögum sínum í frístundaheimilið.“
Sóley bendir á 2. grein Barnasáttmála SÞ þar sem segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess. Reykjavíkurborg sé að gera einmitt það.
„Nauðsynlegt er að breyta innheimtureglum borgarinnar hið fyrsta. Auðvitað þarf að innheimta þær skuldir sem borgin á útistandandi, en það verður að gera án þess að börnunum sé beitt með nokkrum hætti. Innheimtan kann að verða erfiðari og skuldirnar geta orðið meiri en þá verður bara svo að vera. Tilgangurinn getur ekki helgað meðalið ef um börn er að ræða,“ segir Sóley.