Rúm milljón til góðra mála

Alls safnaðist rúm ein milljón króna til góðra mála á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu á Akureyri um síðustu helgi.

Nýr viðburður á hátíðinni bar heitið „Pabbar og pizzur”, þar sem ákveðið var að safna fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Fyrirtæki á Akureyri gáfu allt hráefni og öll vinna og undirbúningur var gefinn. 

Alls söfnuðust 350 þúsund krónur og afhenti Arinbjörn Þórarinsson, einn af Vinum Akureyrar sem standa að hátíðinni, Þorbjörgu Ingvadóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis, styrkinn í gær, samkvæmt fréttatilkynningu.

Að sögn Þorbjargar skiptir stuðningur við félög í heimabyggð gríðarlega miklu máli, og þar sem starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis byggist að langmestu leyti á stuðningi almennings og fyrirtækja á  félagssvæðinu sé það ómetanlegt að fá framlag sem þetta frá „Vinum Akureyrar“. Framtakið „Pabbar og pizzur“ gerir félaginu kleift að styðja enn betur við krabbameinsgreinda einstaklinga á Norðurlandi og fjölskyldur þeirra. Þorbjörg segir ennfremur að það sé ekki síður mikilvægt að finna hlýhug í garð félagsins og er það mikil hvatning til áframhaldandi starfa á þessum vettvangi.

Auk viðburðarins „Pabbar og pizzur“ voru „Mömmur og möffins“” í Lystigarðinum þar sem safnað var fyrir tæki fyrir fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri en alls safnaðist í þessum tveimur viðburðum á Einni með öllu rúm milljón til góðra málefna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert