Skútu hvolfdi úti fyrir Reykjavík

Skúta á siglingu. Myndin tengist fréttinni ekki beint..
Skúta á siglingu. Myndin tengist fréttinni ekki beint..

Skútu hvolfdi vestur af Akurey fyrir utan Reykjavík upp úr klukkan 20 í kvöld. Einn maður var um borð í skútunni og komst hann af sjálfsdáðum upp á kjöl hennar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en ekki kom til þess að hennar nyti við þar sem björgunarskipið Þórður S. Kristjánsson var statt ekki langt frá og náði fljótlega á staðinn.

Björgunarsveitir og kafarar voru einnig kallaðir út í fyrstu en aðstoð þeirra svo afturkölluð. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er maðurinn heill á húfi. Verið er að draga skútuna í land, en ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað olli því að henni hvolfdi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert