„Við höfum sent drög að samkomulagi til allra trúfélaga á Íslandi um framgangsmáta í kynferðisbrotamálum,“ segir Guðrún Ögmundsdóttir sem er formaður fagráðs um ásakanir vegna ofbeldisbrota og kynferðisbrota hjá trúfélögum. „Starfið fer svo aftur af stað í þar næstu viku og við búumst við að viðbrögð við tillögunum berist í lok ágúst þegar allir eru komnir úr fríi,“ segir Guðrún.
„Hugmyndin er sú að allir sitji við sama borð. Við sendum samninginn til trúfélaganna til umsagnar og tökum svo tillit til athugasemda,“ segir Guðrún. Að hennar sögn er samræmdur framgangsmáti í málum af þessu tagi mjög til bóta, og gætu fleiri en trúfélög tileinkað sér hann. „Þetta gæti verið fyrirmynd fyrir aðra, til dæmis íþrótta- og tómstundafélög. Þau félög gætu þá gert með sér samning um hvernig unnið skuli í málum sem þessum,“ segir Guðrún.
Að hennar mati væri sameiginlegt fagráð milli trúfélaga til bóta. „Starfandi er fagráð þjóðkirkjunnar en spurning er hvort æskilegt væri að stofna sameiginlegt fagráð allra trúfélagadeildanna. Einstaka trúfélög hafa verið mjög dugleg að setja sér sínar reglur og gæta gagnsæis og sú vinna nýtist auðvitað líka,“ segir Guðrún. „En með tilkomu samræmdra viðbragða er búið að skilgreina hvernig á að vinna í þessum málum, og þá er búið að tryggja hvernig tekið er á málum áfram,“ bætir hún við.
Starfstími nefndarinnar er óljós að sögn Guðrúnar. „Við höfum skilað tillögum til ráðherra og höldum nú vinnunni áfram þangað til að við sjáum að einhver mynd er komin á þessi mál og búið er að móta skýra ramma og að lagabreytingar sem verið er að vinna að hafi gengið í gegn,“ segir hún.
„Við viljum til að mynda tryggja með lagabreytingu að fólk fái stuðning til að vinna úr sínum málum og að hægt sé að fá greiddan kostnað vegna ofbeldisbrota. Að mörgu er að hyggja og þetta er í góðum farvegi,“ segir Guðrún að lokum.