„Það verður sunnanátt á öllu landinu um helgina og um 8-15 m/s en aðeins hægari þó á morgun, bjartviðri fyrir austan og líklegast verður besta veðrið á Egilsstöðum og á Norðausturlandi og Austurlandi öllu,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en hitinn á Austurlandi gæti farið í 26 stig.
Þá verður veðrið gott á Dalvík þar sem Fiskidagurinn mikli verður haldinn um helgina. Ekki er útlit fyrir rigningu þar og hitinn verður 15 til 20 stig. Það verður hins vegar rigning og súld með köflum á höfuðborgarsvæðinu en hlýtt í veðri.
Varað við hvassviðri í dag
Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll NV-lands og á miðhálendinu eftir hádegi í dag samkvæmt viðvörun á vef Veðurstofu Íslands. Aðstæður geta því verið varasamar fyrir bíla með aftanívagna.
„Þegar líður á daginn hvessir aftur á Vestfjörðum og einkum þó á Norðurlandi um leið og skil nálgast úr vestri. Gera má ráð fyrir snörpum byljum s.s. á Siglufjarðarvegi í Fljótum og hviður þar allt að 25-30 m/s frá því um kl. 15 til 17 og fram á nótt.
Eins verður byljótt við þessar aðstæður neðantil á Gemlufallsheiði í Önundarfirði og um tíma síðdegis á norðanverðu Snæfellsnesi s.s við Grundarfjörð og Búlandshöfða. Á Holtavörðuheiði er spáð SV 20-23 m/s, nokkuð jafn og stöðugur vindur frá um kl. 15 og fram til um kl. 21 í kvöld, þegar tekur að lægja smám saman,“ samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.
Veðurspá Veðurstofu Íslands á öllu landinu fyrir helgina:
Á föstudag og laugardag:
Sunnan 8-15 m/s með rigningu eða súld um vestanvert landið. Heldur hægari austantil og bjartviðri, en þykknar upp í kvöld. Heldur hægari vindur í nótt og á morgun. Rigning eða súld með köflum um landið vestanvert, en léttir til um landið norðaustanvert. Hiti yfirleitt 13 til 18 stig, en allt að 26 stig austanlands.
Á sunnudag:
Suðaustan 8-13 m/s og rigning, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast NA-lands.