Víða þétt umferð í kvöld

Landinn var á töluverðri hreyfingu í dag, ef marka má …
Landinn var á töluverðri hreyfingu í dag, ef marka má tölur úr sjálfvirkum mælum vegagerðarinnar. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Föstudagsumferðin í dag hefur verið nokkuð þétt víða um land. Þetta má sjá á vef Vegagerðarinnar þar sem birtar eru tölur úr sjálfvirkum umferðarmælum.

Töluverð umferð er í Eyjafirði í kvöld og má sjá á talningarmæli sem er á Hámundarstaðahálsi að þar hafa farið 3.188 bílar frá miðnætti og meðalumferð á mínútu er 8,4 bílar nú í kvöld. Það er því ljóst að fjölmargir eru á leið á Fiskidaginn mikla á Dalvík, en í kvöld byrjar hátíðin með því að Dalvíkingar bjóða heim í súpu.

Til samanburðar þá er umferðin um Öxnadalsheiði um 2.121 bíll frá miðnætti og um 3,1 fer  þar um að meðaltali á mínútu nú í kvöld. Umferðin um Víkurskarð er 2.681 bílar frá miðnætti, og 2,5 að meðaltali á mínútu nú í kvöld.

Um Holtavörðuheiði hafa farið 2.974 bílar frá miðnætti og á síðustu 10 mínútum hafa 48 bílar farið þar um, eða 4,8 að meðaltali á mínútu.

Mikil uppferð í Borgarfjörð

Við Hafnarfjall hefur verið mikil umferð í dag, en þar hafa 6.019 bílar farið frá miðnætti og í kvöld er umferðin nokkuð þétt eða 6,8 bílar á mínútu að meðaltali. Miklar sumarhúsabyggðir eru í Borgarfirði.

Á Kjalarnesi er einnig þétt umferð í kvöld, en þar hafa 75 bílar farið um á síðustu 10 mínútum og frá miðnætti 8.868 bílar.

Töluverð umferð um Hellisheiði í dag og í kvöld

Umferðin um Hellisheiði er einnig þétt, en 7.298 bilar hafa farið um veginn í dag og á síðustu 10 mínútum hafa 67 bílar farið um veginn. Um Þrengsli hafa 1.080 bílar farið frá miðnætti, en umferðin er öllu rólegri þar í kvöld en á Hellisheiðinni, eða 7 bílar síðustu 10 mínúturnar. Álíka umferðarþungi er nú á Suðurstrandarvegi, eða 6 bílar síðustu 10 mínútur en 414 bílar hafa farið þar um frá miðnætti.

Um teljarann við Hellu hafa farið 3.357 bílar í dag, en umferðin þar á síðustu tíu mínútum er 27 bílar.

Umferðin upp hjá Gullfossi er fremur róleg í kvöld. Þrír bílar hafa farið þar síðustu 10 mínúturnar og í dag 1.429 bílar.

Á Möðrudalsöræfum er að sama skapi lítil kvöldumferð, um 1 bíll á mínútu og frá miðnætti hafa 943 bílar farið um veginn. Um veginn á Hvalnesi hafa farið 776 bílar frá miðnætti og kvöldumferðin er nokkuð róleg, innan við bíll á mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert