Ísland fékk 700 milljarða króna

Guðbjörn Guðbjörnsson segir á bloggi sínu á Eyjunni að lánveitingar til Íslendinga í kjölfar hrunsins hafi numið um 700 milljörðum króna eða sexfaldri þeirri upphæð sem Íslendingar myndu ábyrgjast í gegnum björgunarsjóðinn vegna efnahagsvandamála nokkurra aðildarríkja myntbandalagsins. Ritar Guðbjörn bloggið í kjölfar útreikninga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem fjallað var um í Morgunblaðinu í dag.

„Ég heyrði í Guðlaugi Þór Þórðarsyni í hádeginu, þar sem hann var að óskapast yfir því að værum við með evruna, og þar með aðilar að Björgunarsjóði evruríkjanna, væru ábyrgðir okkar gagnvart sjóðnum eitthvað um 115 milljarðar króna. Ekki ætla ég að efast um réttmæti fullyrðingar þessarar, en bendi Guðlaugi Þór á að lán frænda okkar á Norðurlöndunum til Íslands árið 2009 var upp á 1.775 milljónir evra eða um 317 milljarða íslenskra króna á þeim tíma.

Til viðbótar fengu Íslendingar lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadala, sem voru á þessum tíma um 294 milljarðar króna. Að auki lánaði pólska ríkið íslenska ríkinu 630 milljónir pólskra slota (zloty, PLN), sem var jafnvirði u.þ.b. 200 milljóna Bandaríkjadala eða um 30 milljarða og bræður okkar í Færeyjum 300 milljónir danskra króna í gjaldeyrislán en það samsvaraði 6,1 milljarði íslenskra króna. Þessar upplýsingar getur Guðlaugur Þór sannreynt á netinu, en hann slær að eigin sögn öllum öðrum þingmönnum við varðandi kunnáttu á það góða tæki.

Með þessum lánveitingum gengust skattborgarar aðildarríkja AGS, Póllands, Færeyja og Norðurlandanna í ábyrgð fyrir þjóð er átti um sárt að binda og komu þannig í veg fyrir gjaldþrot Íslands. Lánveitingar til Íslendinga í kjölfar hrunsins námu því líklega um 700 milljörðum króna eða sexfaldri þeirri upphæð, sem Íslendingar myndu ábyrgjast í gegnum björgunarsjóðinn vegna efnahagsvandamála nokkurra aðildarríkja myntbandalagsins.

Sumt fólk er þannig gert að það hugsar einungis um sjálft sig og réttir aldrei neinum hjálparhönd, en finnst hins vegar alltaf fullkomlega eðlilegt að aðrir komi því til aðstoðar þegar erfiðleikar steðja að. Margir Íslendingar – þó sérstaklega þeir sem mesta ábyrgð bera í þeim efnum – virðast vera búnir að gleyma ástandinu sem geisaði hér haustið 2008, þegar stjórnvöld og almenningur höfðu áhyggjur af greiðslufalli  og jafnvel að erfitt kynni að verða að flytja inn nauðsynjavörur.

Betur fór en á horfðist og við fengum neyðarhjálp frá AGS og nokkrum vinveittum þjóðum Evrópu. Enga hjálp var að fá frá gömlum bandamönnum okkar Bandaríkjamönnum eða Rússlandi og Kína.

Það var haustið 2008 og veturinn 2009, sem við Íslendingar sáum hverjar raunverulegar vinaþjóðir okkar voru og eru,“ skrifar Guðbjörn.

Guðbjörn Guðbjörnsson.
Guðbjörn Guðbjörnsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert