„Gjaldeyrishöftin áttu að vera til skamms tíma, nú spá sumir að þau verði að minnsta kosti til 2015. Vinstri-grænir vilja halda í höftin til að geta handstýrt atvinnulífinu og sett einkaframtaki hömlur. Samfylkingin vill halda í höftin til að geta notað þau í ESB-áróðri sínum,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni.
Hann vísar í skýrslu Júpiters rekstrarfélags ehf. frá 9. ágúst síðastliðnum þar sem meðal annars kemur fram að ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöftin væri heildarafkoma ríkissjóðs umtalsvert verri en raunin sé. Þannig hafi tilvist haftanna haldið fjármagnskostnaði ríkisins töluvert lægri en annars hefði orðið.
„Gjaldeyrishöftin leiða til blekkinga við uppgjör á ríkissjóði. Þau nýtast Seðlabanka Íslands til að stunda blekkingarstarf um íslenska ríkisskuldabréfamarkaðinn,“ segir Björn. Hins vegar hafi krónan nú styrkst og peningar streymi frá evrusvæðinu vegna ótta um örlög hennar.
„Hvers vegna skyldu eigendur íslenskra króna keppast við að flytja þær úr landi ef höftin yrðu afnumin? Málið snýst um pólitískt hugrekki í krafti fastmótaðrar stefnu. Höftin verða því við lýði á meðan Jóhanna og Steingrímur J. sitja við stjórnvölinn,“ segir Björn ennfremur.