Mikill viðbúnaður er í miðborginni vegna Gleðigöngunnar sem þar fer fram í dag. Bæði verður götum lokað og áætlun Strætó breytt. Hins vegar virðist ekki ætla að viðra vel til göngunnar í ár en töluvert rignir nú á höfuðborgarsvæðinu.
Í tengslum við hátíðina er búist við miklum fólksfjölda í miðborginni og óhjákvæmilega verða þar truflanir á bílaumferð, segir á vef Hinsegin daga. Götur verða lokaðar í kringum gönguleiðina og hátíðarsvæðið meðan á göngu og hátíðardagskrá stendur.
Í ár er stillt upp fyrir Gleðigönguna á Vatnsmýrarvegi, gengið norður Sóleyjargötu, eftir Fríkirkjuvegi og Lækjargötu og framhjá Arnarhóli þar sem útitónleikarnir eru haldnir að lokinni göngu.
Byrjað verður að raða göngunni upp á Vatnsmýrarvegi kl. 12:00. Gangan leggur stundvíslega af stað kl. 14 og bíður ekki eftir neinum, að því er segir á vef Hinsegin daga.