Vilja endurskoða ESB-umsóknina

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur við að endurskoða umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið hefur farið vaxandi innan þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Forsendur þykja hafa breyst og er vilji fyrir því að taka málið upp á Alþingi á ný.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld en þar sagði ennfremur að í þingflokki VG þætti óþægilegt að hefja kosningavetur með málið í þeim farvegi sem það hefur verið til þessa.

Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformann VG, sem sagði forsendur meðal annars hafa breyst vegna efnahagserfiðleikanna innan Evrópusambandsins. Þá væri óvíst hvert sambandið stefndi pólitískt. Fara þyrfti yfir málið við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, Samfylkinguna.

Þá er rætt við Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra á fréttavef Ríkisútvarpsins sem tekur í sama streng og Katrín. Hún segir ennfremur að rakið sé að ræða málið og hvernig rétt væri að standa að slíkri endurskoðun þess á flokksráðsfundi VG sem fram fer síðar í þessum mánuði.

Fundað verður um stöðu viðræðnanna við Evrópusambandið í utanríkismálanefnd Alþingis á mánudag en samninganefnd Íslands hefur verið kölluð fyrir fundinn.

Frétt Ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert