Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í gærkvöldi erlendan ferðamann sem var í hrakningum uppi við Hofsjökul. Maðurinn, sem er pólskur, var á göngu þvert yfir landið á leið frá Reykjanesi að Langanesi, en féll þegar hann var að þvera Þjórsárkvíslir og barst eina 400-500 metra með straumnum.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi náði maðurinn að komast af sjálfsdáðum í land og gera vart við sig. Björgunarsveitarmenn Landsbjargar sem sinna gæslu á hálendinu í sumar voru í samskiptum við hann og fóru af stað áleiðis en á endanum varð úr að þyrla yrði send eftir honum.
Þyrlan var þá á Akureyri eftir að hafa sótt hjartveikan mann um borð í skemmtiferðaskip norðaustan við landið. Það var svo um eittleytið í nótt sem þyrlan kom til Reykjavíkur með pólska göngumanninn. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi var maðurinn í þokkalegu standi en bæði kaldur og hrakinn eftir volkið.