„Með harðnandi andstöðu í landinu við ESB, sem við blasir öllum, hefur sorfið æ meira að forystu VG, sem á sínum tíma seldi sannfæringu sína og fyrirheit fyrir sæti við ríkisstjórnarborðið með Samfylkingunni,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, í pistli á bloggsíðu sinni nú í kvöld.
Einar segir aukna hörku hafa færst í andstöðuna við Evrópusambandsaðild. Því sé ljóst að forysta Vinstrihreyfingarinnar sé komin í vandræði. Hann bendir á að þrír ráðherrar VG sem allir hafi stutt umsókn Íslands að ESB á Alþingi skuli nú í örvæntingu viðra efasemdir um aðildina að ESB. Þó séu ekki nema fáeinir mánuðir síðan þessir sömu ráðherrar hafi, eins og þingmenn flokksins, greitt atkvæði gegn tillögu um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu nú í haust. Þá hafi Samfylkingin túlkað það sem endurnýjað samningsumboð stjórnvalda gagnvart ESB.
„En áfram sverfur að forystu VG vegna umsóknarinnar að ESB. Það má glöggt heyra á málsmetandi VG-liðum úti um landið, sem ég hef hitt á síðustu mánuðum, að þolinmæði þeirra gagnvart flokksforystu sinni er ekki bara á þrotum; hún er gjörsamlega þrotin.“
Hér má lesa pistil Einars í heild.