Stefnt að þingkosningum í haust?

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

„Með því að láta Evrópumálin verða eina helstu ástæðu stjórnarslita, verða raðir VG þéttari og eflaust munu margir kjósendur snúa sér aftur að flokknum,“ segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni en þar leiðir hann líkur að því að forysta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kunni að hafa í hyggju að slíta stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna í haust sem myndi verða til þess að þingkosningar færu fram fyrir jól í stað næsta vors.

Tilefni skrifa Óla Björns er frétt Ríkisútvarpsins í gærkvöldi þess efnis að vaxandi stuðningur væri við það sjónarmið innan þingflokks VG að endurskoða þyrfti umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. „Steingrímur J. Sigfússon er eldri en tvævetra í pólitík og gerir sér fyllilega grein fyrir stöðunni. Líkt og herforingi í afleitri stöðu mun hann því leita leiða til þess að þjappa liði sínu saman en um leið koma andstæðingum sínum í opna skjöldu – leggja til atlögu þegar andstæðingurinn er ekki undir það búinn.“

Óli Björn segir að VG geri sér grein fyrir því að flokkar stjórnarandstöðunnar séu ekki búnir að vinna heimavinnuna sína fyrir kosningar enda geri þeir ekki ráð fyrir öðru en að þær verði næsta vor. „Kosningar með skömmum fyrirvara munu því, að öðru óbreyttu, veikja mjög stöðu stjórnarandstöðunnar. Skipan á framboðslista er sett í uppnám og fastmótuð stefnuskrá fyrir kosningar verður unnin á hlaupum. Hið sama á við um ný framboð sem ógnað hafa VG og sótt fylgi í raðir flokksins.“

Hann segir ennfremur að VG geti þannig gert sér vonir um betri kosningu fyrir jól en næsta vor. Möguleikar flokksins á áframhaldandi veru í ríkisstjórn aukist að sama skapi. „Á nokkrum vikum er hægt að mynda nýja þriggja flokka ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Með því hafa Vinstri grænir og Samfylkingar fengið fjögur dýrmæt ár í viðbót og ekki skemmir að Sjálfstæðisflokknum verður haldið utan ríkisstjórnar. Framsóknarflokkurinn undir nýrri forystu hefur tryggt sér þátttöku í ríkisstjórn eftir að hafa setið úti í kuldanum frá 2007.“

Óli Björn segir að endingu að sjálfstæðismenn þurfi að svara þeirri spurningu hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn fyrir kosningar sem kunni að fara fram innan nokkurra vikna. „Flestir munu svara spurningunni neitandi.“

Pistill Óla Björns Kárasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert