„Um síðustu jól var byrjað að panta nautalundir fyrir næstu jólahátíð,“ segir Unnsteinn Hermannsson, bóndi í Langholtskoti í Hrunamannahreppi. Fjölskyldan er með nautgripaeldi og eigin kjötvinnslu og selur kjötið jafnóðum heima, allt frá lundum og niður í hakk.
Eftirspurnin er svo mikil að Unnsteinn hefur ekki alltaf undan að framleiða. Unnsteinn og kona hans, Valdís Magnúsdóttir, ákváðu að hætta mjólkurframleiðslu fyrir nokkrum árum og snúa sér alfarið að nautakjötsframleiðslu. Þau ala holdagripi af Galloway- og Aberdeen Angus-kyni og einnig naut af íslenska kúakyninu.
Kjötvinnslan kom í kjölfarið. „Við vildum vinna afurðirnar eins og neytendur helst vilja og eiga möguleika á að gera þetta að lífvænlegri atvinnustarfsemi. Við náum milliliðakostnaðinum til okkar, vinnslu og sölu kjötsins,“ segir Unnsteinn í umfjöllun um búskap þeirra í Morgunblaðinu í dag. Þau Valdís selja allar afurðirnar beint til neytenda.