„Það er kannski betra seint en aldrei fyrir Vinstri græna að sjá ljósið og viðurkenna að þetta er nú ekki allt eins og þau hafa haldið fram til þessa. Ég held nú samt að þetta sé ekkert annað en kosningaskjálfti,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, í tilefni af yfirlýsingu tveggja VG-ráðherra um að endurmeta beri aðildarviðræður við ESB.
Er þar átt við ummæli Svandísar Svavarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur sem fjallað hefur verið um á mbl.is og RÚV.
Ragnheiður Elín segir titring innan VG vegna Evrópumálanna.
„Það hefur verið augljóst öllum um nokkurt skeið að Vinstri grænir eru farnir að titra vegna kosninganna. Þeir vita upp á sig sökina í þessu máli, þeir standa illa og ætla með þessu að reyna að bjarga sér fyrir horn. En þetta er ótrúverðugt - við höfum bent á erfiðleikana í Evrópusambandinu um margra mánaða skeið, breyttu forsendurnar sem þær vísa til núna hafa legið fyrir mjög lengi. Það er ekkert nýtt að gerast núna nema að kosningar nálgast á Íslandi.“
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, lagði fram bókun í utanríkismálanefnd í maí þar sem hún kallaði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina fyrir áramót. Þið studduð þessa bókun. Má eiga von á tíðindum af fundi utanríkismálanefndar á morgun?
„Mér þykir ekki ólíklegt að það komi einhver hreyfing á þetta mál. Í ljósi yfirlýsinga Svandísar og Katrínar og annarra liggur það beinlínis við að það hlýtur að fara að myndast nýr meirihluti fyrir breyttri stefnu á Alþingi í Evrópumálum og þá er um að gera að láta reyna á það.“