Mörður tekur undir með Jóni Bjarna

Þinghús ESB í Strasbourg.
Þinghús ESB í Strasbourg. Ljósmynd/JPlogan

„Ég tek í sjálfu sér undir með Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni að því meira sem við fáum út úr viðræðunum og því lengra sem við komust í þeim, þeim mun betra er það fyrir kosningarnar,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, í tilefni af vaxandi kröfu innan VG að endurskoða beri ESB-viðræðurnar.

Mörður telur eðlilegt að menn vilji fara yfir málin.

„Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að í þessum flokki, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, sé eins og í öllum öðrum flokkum sífelld umræða um Evrópumálin. Það sem við vissum – og menn hafa alltaf vitað – er að Evrópusambandið er ekki fastmótuð söguleg staðreynd heldur merkilegt fyrirbæri í hreyfingu og þróun.

Þannig að það á ekki að koma á óvart að sambandið sé núna aðeins annað en þegar við horfðum á það fyrir þremur árum. VG virðist ætla að ræða þetta fyrst innan sinna raða áður en þeir fara annað. Það er líka alveg eðlilegt og ekkert að því að finna. Við gerum það líka.

Ég veit ekki niðurstöðuna fyrirfram en ég er ekki sammála því mati sem ég les út úr ummælum þeirra tveggja, Svandísar og Katrínar, að einhver sú breyting hafi orðið hjá ESB sem ætti að hafa áhrif á ákvörðun um viðræður. Mér sýnist sjálfum að það sé langeðlilegast í stöðunni að halda áfram eins og ráð var fyrir gert og klára viðræðurnar og fá svo samningsdrögin. Þegar menn taka afstöðu til þeirra taka þeir líka afstöðu til Evrópusambandsins og þeirra framtíðarhorfa sem þá eru uppi.“

Ekki tekist að opna sjávarútvegskaflann

Spurður hvort hann telji raunhæft að ljúka meginatriðum viðræðnanna fyrir næstu kosningar, eins og nokkrir forystumenn VG hafa krafist, segist Mörður ekki vera í saminganefndinni og því ekki geta fullyrt neitt um möguleikana í því efni.

„Það vildu allir hafa opnað sjávarútvegskaflann. Það hefur ekki tekist. Menn geta velt því fyrir sér af hverju það er. Það er hins vegar verið að opna merkilegan kafla sem eru landbúnaðar- og byggðakaflarnir. Mér sýnist óvænna horfa um sjávarútveginn í bili. Þó er aldrei að vita hvað verður í haust og vetur. Einhver titringur er út af makrílnum og kannski verða tíðindi þar með haustinu.

Ég tek í sjálfu sér undir með Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni að því meira sem við fáum út úr viðræðunum og því lengra sem við komust í þeim, þeim mun betra er það fyrir kosningarnar. En það er ekkert gefið í þessu og menn verða að taka því sem upp kemur án þess að taka til fótanna við minnstu hnökra. Svona viðræður taka langan tíma og eru erfiðar. Kreppan skapar auðvitað ekki kjöraðstæður til viðræðna, ekki heldur fyrir Evrópusambandið, en þar geta líka legið ákveðin tækifæri.“

Mörður Árnason.
Mörður Árnason. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert