„Ég held að þetta sé nú bara einhver popúlismi í aðdraganda kosninga. Það hefur margítrekað verið kosið um það inni á Alþingi hvort það eigi að endurskoða þessa umsókn og allir þessir ráðherrar og þingmenn vinstri grænna sem segjast núna vilja skoða málin hafa hafnað þeim tillögum. Þannig að ég upplifi þetta bara sem innantómt orðagjálfur.“
Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en eins og fjallað hefur verið um á mbl.is er meirihluti þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hlynntur því að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði tekin til endurskoðunar og þar á meðal varaformaður flokksins Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
„Vitanlega vonar maður að það sé einhver innistæða á bak við þessi orð en eftir að hafa brennt sig margoft á því á kjörtímabilinu að uppi séu miklar yfirlýsingar en þeim fylgi engar gerðir þá á ég ekki von á því. Það hefur verið alveg sama hversu miklir hagsmunir hafa verið í húfi fyrir land og þjóð, eins og til dæmis Icesave-málið sýnir vel, þá hefur enginn í þingflokki vinstri grænna verið reiðubúinn að gera eitthvað sem hefði getað látið hrikta í stoðum stjórnarsamstarfsins,“ segir Höskuldur.
Aðspurður segist Höskuldur ekki eiga von á því að boðað verði til þingkosninga fyrr en næsta vor. Hann sjái ekki fyrir sér að þingmenn VG eigi eftir að gera neitt til þess að stefna stjórnarsamstarfinu í hættu.