„Þetta er þessi þekkti taugasjúkdómur, kosningaskjálfti. Eins og menn vita eru náttúrlega skiptar skoðanir í VG um það hvort þessi aðildarumsókn sé skynsamleg eða æskileg. Ég er á því að það sé eina raunhæfa leiðin til þess að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort við eigum að vera í þessu bandalagi eða ekki að klára þetta samningaferli. Það hefur ekkert breyst hjá mér í því.“
Þetta segir Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is aðspurður hvort hann sé sammála meðal annars Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanni VG, og Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að endurskoða þurfi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið en eins og fram kemur í ítarlegri frétt um málið í Morgunblaðinu í dag eru í það minnsta átta af tólf þingmönnum VG á þeirri skoðun.
Vill að talað sé hreint út um málið
„Hjá VG háttar svo til að það er svona flokkskjarni, virkir félagar sem mæta á fundi og eru í öllum ráðum og nefndum og eru svona flokkseigendakjarninn. Þar er mikill meirihluti gegn Evrópusambandinu, einhver svona andúð á því mikil fyrirfram. En hins vegar á VG mun fleiri kjósendur en þessa kannski þrjú hundruð og á meðal þeirra sem kjósa VG og eru utan þessa flokkskjarna þar eru verulega skiptar skoðanir,“ segir Þráinn, spurður um áhyggjur margra flokksfélaga hans af því að fara í kosningabaráttuna fyrir næstu þingkosningar með Evrópumálin í óbreyttum farvegi.
„Ég get ekki betur séð en að krafa um að taka upp viðræður um ákvörðun sem þegar hefur verið tekin jafngildi því að segja upp og slíta þessu samstarfi og ég sé enga ástæðu til þess, ekki nokkra. Mér finnst líka að fólk, sem er svona eitthvað að jarma til kjósenda, það eigi bara að tjá sig skýrt. Vill það sem sagt slíta þessu stjórnarsamstarfi út af þessu eða ekki?“ segir Þráinn ennfremur.