Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér tilkynningu þar sem farið er fram á það að Sjálfstæðisflokkurinn haldi prófkjör í öllum kjördæmum.
„Ungir sjálfstæðismenn skora á kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum að halda prófkjör fyrir alþingiskosningarnar næsta vor. Lýðræði í flokknum var aukið á ýmsa vegu með breytingum sem gerðar voru á skipulagsreglum flokksins á síðasta landsfundi. Það væri í hrópandi ósamræmi við þá stefnumörkun landsfundar að halda ekki prófkjör enda eru prófkjör lýðræðislegasta leiðin til velja fulltrúa flokksins í kosningum.
Flokkurinn brást við kalli um endurnýjun forystu hans eftir bankahrunið og kaus sér nýjan formann og varaformann. Enn er uppi ákveðin krafa meðal sumra, innan flokksins og úti í samfélaginu, um frekari endurnýjun. Prófkjör eru besta leiðin til að leyfa fólki að sýna það í verki hvort það vilji sannarlega endurnýjun og þau eru besta leiðin fyrir þingmenn flokksins til að endurnýja umboð sitt fyrir næstu kosningar,“ segir í tilkynningu sem SUS hefur sent á fjölmiðla.