Umsóknin var andvana fædd

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þessi atburðarás kemur mér ekkert á óvart. Það lá alltaf fyrir að vinstri-grænir gætu ekki farið í kosningabaráttu með þetta mál í óbreyttum farvegi. Þetta mál var þess utan alla tið andvana fætt þar sem ríkisstjórnin hefur verið gersamlega klofin í því,“ segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Engin skynsemi sé að halda áfram með umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið í ljósi þess sem gerst hafi í tengslum við hana á undanförnum árum.

„Enda sjá menn bara að framundan eru óhjákvæmilega slíkar breytingar hjá Evrópusambandinu að það er tómt mál að tala um það að halda málinu til streitu. Jafnvel þó viðræðurnar yrðu kláraðar þá vita menn ekkert hvernig sambandið á eftir að þróast á komandi árum. Og um hvaða ESB væri þá verið að kjósa hér á Íslandi?“ segir Illugi. Skynsamlegast væri að stöðva umsóknarferlið og hefja það ekki að nýju nema skýrt umboð lægi fyrir frá kjósendum í þjóðaratkvæði.

„Þetta er augljóslega til komið vegna stöðu vinstri-grænna í skoðanakönnunum og stöðunnar innanflokks hjá þeim. Allur aðdragandi málsins er svo augljós og allir flokkshagsmunir þeirra knýja fram þessa niðurstöðu,“ segir Illugi ennfremur aðspurður hvort honum þyki yfirlýsingar úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um að endurskoða þurfi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið trúverðugar.

„Þeim má ljós vera að þetta er aðalmál Samfylkingarinnar þannig að þeir hljóta að gera sér það ljóst að það er ekkert aftur snúið með þetta. Þeir munu ekki geta bakkað út úr þessari atburðarás. Og þá er spurningin hvort Samfylkingin er tilbúin að beygja sig til þess að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi eða það sem best væri fyrir þjóðina alla að þeir ákveddu bara að fara frá og boðað yrði sem fyrst til kosninga,“ segir Illugi spurður að því hvort hann eigi von á því að ríkisstjórnin fari frá vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert