„Verktakafyrirtækin kvarta undan því að stóru verkefnin skorti. Það er mikið áhyggjuefni ef það verða ekki umskipti þannig að stórar framkvæmdir geti farið af stað með haustinu. Við hjá ASÍ höfum áhyggjur af því að fjölgun starfa yfir hábjargræðistímann gangi til baka í haust. Það er ekki annað að heyra á sérfræðingum Vinnumálastofnunar.“
Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um skort á nýframkvæmdum, í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
„Atvinnuástandið er auðvitað best í júlí og ágúst og svo dregur verulega saman hjá ferðaþjónustunni þegar það fer að hausta. Þá skiptir auðvitað máli að eitthvað annað sé að fara í gang. Við höfum áhyggjur af því að það verði ekkert til að taka við því vinnuafli sem losnar þegar það fer að þrengja að störfum í ferðaþjónustu,“ segir Gylfi sem gagnrýnir skort á nýfjárfestingu í hagkerfinu.
Gylfi telur ríkisstjórnina hafa lagt stein í götu virkjanaframkvæmda með því að setja rammaáætlun um virkjanasvæði í pólitískan farveg.