„Ég held að allar útlínur verði orðnar skýrar og komin niðurstaða í öllum þessum veigamestu köflum, landbúnaði, sjávarútvegi og peningamálum,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, sem telur raunhæft að fá niðurstöður í meginkafla ESB-viðræðna fyrir kosningar.
Morgunblaðið ræddi við Björgvin í tilefni þess að Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir, ráðherrar VG, telja tilefni til að endurmeta ESB-umsóknina.
Björgvin er bjartsýnn á að umsóknin verði komin langt fyrir þingkosningarnar.
„Það fer væntanlega eftir ástandinu í Evrópu og annars staðar í heiminum hvort það náist að ljúka öllum samningsköflunum. En ég held að þegar kemur að kosningunum verði samningsferlið langt komið þannig að útlínurnar liggi fyrir, þó svo að það verði ekki búið að kjósa um aðildarsamninginn eða loka honum.
Ég held að allar útlínur verði orðnar skýrar og komin niðurstaða í öllum þessum veigamestu köflum, landbúnaði, sjávarútvegi og peningamálum. Það var alltaf markmiðið að ljúka viðræðunum á kjörtímabilinu en síðan hefur margt gerst sem við sáum ekki fyrir og hægði á þessu ferli. Engu að síður tel ég raunhæft að endatafl viðræðnanna verði hafið þegar kjörtímabilinu lýkur."
Hafa ólíkar skoðanir um Evrópumálin áhrif á áhuga ykkar á að starfa áfram með VG í ríkisstjórn, falli atkvæði á þann veg?
„Samstarfið hefur gengið þokkalega í öllum aðalatriðum þó svo að þessir flokkar séu ólíkir um margt. Því held að það sé ekki óeðlilegt að þeir setjist niður eftir kosningar og ráði fram úr því hvort vilji og forsendur séu til áframhaldandi samstarfs, áður en þeir ræða við aðra flokka um slíkt. Gengi í kosningum og málefnastaða ræður síðan framhaldinu.“