Atvinnuleysið mælist 4,7%

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun mbl.is/Ómar Óskarsson

Skráð atvinnuleysi í júlí var 4,7%, en að meðaltali voru 8.372 atvinnulausir í mánuðinum og fækkaði þeim um 332 að meðaltali eða um 0,1 prósentustig, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Hefur atvinnuleysi ekki mælst jafn lítið hér á landi síðan í nóvember 2008 eða skömmu eftir hrunið. Þá mældist atvinnuleysið 3,3%. Hins vegar var atvinnuleysið á milli 1-2% fyrstu tíu mánuði ársins 2008.

Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 294 að meðaltali og konum um 38. Atvinnulausum fækkaði um 261 á höfuðborgarsvæðinu en um 71 á landsbyggðinni.

Atvinnuleysið var 5,4% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 5,5% í júní. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 3,5% og breyttist ekki frá júní. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 7,4%, og minnkaði úr 7,5% í júní. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,2%. Atvinnuleysið var 4,1% meðal karla og 5,4 % meðal kvenna.

3.418 án atvinnu í ár eða meira

Alls hefur 5.441 verið atvinnulaus lengur en sex mánuði samfellt. Hefur þeim fækkað um 63 frá lokum júní og eru um 63% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í júlí. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.418 í júlílok og fækkar um 103 frá lokum júní.

Alls voru 1.242 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok júlí eða um 14,3% allra atvinnulausra. Í lok júní voru 1.265 á þessum aldri atvinnulausir og hefur þeim fækkað um 23 milli mánaða. Í lok júlí 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.930 og fækkaði því um 688 milli ára í þessum aldurshópi.

Alls voru 1.517 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júlí, þar af 866 Pólverjar eða um 57% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Í júnílok sl. voru 1.587 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá og fækkaði því um 70 erlenda ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í ýmiss konar þjónustu eða 223.

Útlit fyrir svipað atvinnuleysi í ágúst

Almennt breytist atvinnuleysi lítið milli júlí og ágúst. Fyrir ári jókst atvinnuleysið milli þessara mánaða úr 6,6% í júlí í 6,7% í ágúst. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í ágúst verði svipað og í júlí eða aukist lítils háttar og verði á bilinu 4,6%‐5%, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert