„Þetta rífur allt samfélagið á hol“

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er í rauninni að ítreka afstöðu sem ég hef lýst lengi, hve mikilvægt það er að fá lyktir í þetta mál. Ég hefði haldið að það hlyti að vera orðið öllum ljóst að tímaglasið er að verða útrunnið í þessum efnum,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í samtali við mbl.is um stöðu mála varðandi umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Þá segist hann hafa rökstuddan grun um að sambandið sjálft vilji draga málið á langinn enda vilji það alls ekki að innganga í það verði felld hér á landi.

„Þannig yrðum við að velkjast í þessu árum saman þangað til niðurstaða fengist og það er eitthvað sem við getum ekki látið bjóða okkur. Ég tel reyndar að það sé komið á daginn hvernig þessi samskipti öll líta út og að það sé ekki eftir neinu að bíða að spyrja þjóðina álits,“ segir Ögmundur og bætir við að þegar fulltrúar þjóðarinnar deili um málið á Alþingi og geti ekki komið sér saman um það sé hægur vandi að skjóta því til hennar og láta hana kveða upp úr hvað hún vilji gera.

Fá mál verið skoðuð eins ítarlega

„Ég vil láta spyrja einfaldrar spurningar og hún er þessi: Á grundvelli þess sem þegar liggur fyrir, og með hliðsjón af því sem er að gerast innan Evrópusambandsins, vilt þú að Ísland fái aðild að sambandinu? Einhver staðar heyrði ég stjórnmálamann segja að menn mættu ekki vera svona hræddir við fólk. Það á hins vegar við um þá sem ekki þora að skjóta þessu máli til þjóðarinnar en enga aðra. Stundaglasið er einfaldlega að renna út og það hljóta allir að gera sér grein fyrir því. Við förum ekki með þetta mál óútkljáð inn í nýtt kjörtímabil.“

Þá gefur Ögmundur lítið fyrir ummæli þess efnis að ekki liggi nægar upplýsingar fyrir um það hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með fyrir Ísland svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. „Við erum búin að lifa með þessu Evrópusambandi og öllu þessu aðlögunar- og aðildarferli núna í nokkur ár og að gefa sér það að það viti enginn neitt um það hvað hann er að tala þegar hann tekur afstöðu í skoðanakönnunum eða á opinberum vettvangi. Það er hrokafull afstaða. Það eru fá mál sem hafa verið skoðuð eins ítarlega ofan í kjölinn.“

Horfast verði í augu við veruleikann

Spurður um framhaldið í kjölfar ummæla Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að endurskoða þurfi umsóknina og hvort vinstri-grænir muni láta brjóta á málinu í ríkisstjórnarsamstarfinu ef á þurfi að halda segist Ögmundur ekki endilega vilja gefa sér neitt um það hvernig tekið verði á því máli. Hins vegar verði að horfast í augu við veruleikann í málinu.

„VG var alltaf með fyrirvara vegna málsins eins og hægt er að fletta upp í þingumræðum þegar umsóknin var samþykkt. Og nú ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum einasta manni að aðstæður allar innan Evrópusambandsins hafa gerbreyst. Þar loga vandræðabálin og þeim fækkar sem vilja ganga inn í það eldhaf. Þannig að það er svo margt sem veldur því að margir vilja endurskoða afstöðu sína,“ segir Ögmundur en ítrekar að það hafi alltaf verið hans skoðun að hraða ætti því eins og kostur væri að fá einhverjar niðurstöður í málinu og bera þær undir þjóðina.

„En nú er hins vegar að koma á daginn að menn vilja þæfa málið og draga það á langinn og það er nokkuð sem við getum ekki látið bjóða okkur. Þess utan er þetta svo eyðileggjandi fyrir allt þjóðlífið, hvort sem það er hinn pólitíski angi eða sá efnahagslegi, að hafa þetta hangandi yfir okkur. Þetta rífur allt samfélagið á hol og deilir því í fylkingar og hefur staðið ýmsum öðrum hagsmunamálum okkar fyrir þrifum auk þess sem þetta er náttúrulega gríðarlega kostnaðarsamt," segir Ögmundur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert