Að minnsta kosti 3 fangar sem eru alvarlega veikir á geði eru nú vistaðir á Litla-Hrauni innan um almenna fanga. Starfsfólk fangelsisins er ekki þjálfað til að sinna þessum mönnum, sem geta verið sjálfum sér og öðrum hættulegir auk þess að skapa spennu í samskiptum við almenna fanga. Treglega hefur hins vegar gengið að koma þessum föngum undir læknishendur á geðdeildir, eins og Fangelsismálastofnun telur þörf á.
Gerð verði úttekt á stöðu geðsjúkra fanga
„Það má segja að almennt sé staðan ágæt og verið að veita geðsjúkum föngum góða þjónustu inni í fangelsunum, en svo koma þessi öfgafullu tilfelli inn á milli sem getur verið erfitt að eiga við þegar það skortir aðbúnað í fangelsinu,“ segir Björgvin G. Sigurðsson formaður allsherjarnefndar, sem boðaði í dag til fundar um vistun geðsjúkra í fangelsum.
„Það eru tilfelli sem eru á gráu svæði milli þess að eiga heima í fangelsi eða á geðdeild. Þessi mál skarast milli stofnana svo það er ákveðinn núningur í gangi og það þarf að vera betri samhæfing milli heilbrigðiskerfisins og fangelsismálayfirvalda.“ Björvin segir nefndarmenn ætla að leggja til á Alþingi að úttekt verði gerð á stöðu geðsjúkra fanga og í kjölfarið ráðist í úrbætur.
Geta ekki rekið sjúkrahús innan fangelsisins
„Við erum að reyna að endurhæfa menn, en þegar þeir eru það illa veikir að það er ekki hægt, þá verðum við að leita aðstoðar annars staðar. Við getum ekki rekið sjúkrahús inni í fangelsinu, ekki frekar en við rekum menntaskóla eða háskóla. Við reynum auðvitað að veita aðgang að þessari þjónustu, en við verðum alltaf að leita út fyrir fangelsið til sérfróðra og sérhæfðra aðila til að veita hana,“ segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun.
Erlendur var gestur á fundi allsherjarnefndar í morgun ásamt fulltrúum frá geðsviði Landspítala, Litla-Hrauni, Geðhjálp og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Erlendur tekur undir með Björgvin að almennt sé heilbrigðisþjónusta gagnvart föngum í lagi. Fangaverðir og annað starfsfólk fangelsanna sé vant því að vinna með föngum sem eiga við geðræn vandamál að stríða, enda geti fangelsisvist ein og sér haft áhrif á geðheilsu, en alvarlegustu veikindin ráði það ekki við.
Ber að hjálpa alvarlega veikum föngum
„Menn í afplánun geta verið þunglyndir og liðið illa sem eðlilegt er þegar þú hefur gert eitthvað skelfilegt af þér og ert skilinn frá konu og börnum. Það fylgir því ýmis vanlíðan sem við tökum á, en þegar menn eru farnir að sjá orma skríða út úr innstungum, allt er í hers höndum og menn eru hættulegir sjálfum sér og öðrum, þá verðum við að leita okkur aðstoðar.“
Þar stendur þó hnífurinn í kúnni. „Af hálfu Landspítalans hefur verið tregða til að veita pláss og vísað til þess að það séu fá pláss og svo framvegis. Við aftur vísum til þess að illa sjúkur fangi er illa sjúkur einstaklingur, og okkur ber að reyna að hjálpa honum. Auðvitað kvarta allir yfir því að eiga ekki nógan pening, en ég held að það sé hægt að leysa þetta með meiri samvinnu og mér heyrist að fulltrúar Landspítalans og þeirra sem voru þarna séu alveg tilbúnir til þess.“
Aðspurður segir Erlendur að aðstæður muni batna þegar nýtt fangelsi rís á Hólmsheiði. „Þar munum við geta búið til miklu minni einingar þannig að við þurfum ekki að hafa þessa illa veiku fanga innan um aðra, þótt þeir verði áfram hjá okkur. Við getum þá reynt að búa til sérdeild þar sem er meira eftirlit og ummönnun án þess að það sé endilega kallað geðdeild.“
Ætla að hittast aftur fljótlega
Á fundinum í morgun var lagður grunnur að aukinni samhæfingu milli stofnanna. Björgvin segir að allir séu af vilja gerðir og ýmsir möguleikar séu í stöðunni. Undir það tekur Erlendur. „Þetta var ágætis fundur og við erum búin að ákveða að hittast aftur og ræða þessi mál frekar. Það verður gert á allra næstu dögum.“