Málið verði tekið fyrir strax og þing kemur saman

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður. mbl.is/Kristinn

„Sú staða sem er komin upp varðandi aðildarumsóknina að ESB, kallar á að málið sé gert upp á Alþingi nú strax í haust, þegar þing kemur saman. Það er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag.

Miðað við yfirlýsingar ráðherra og þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs virðist það blasa við að sögn Einars að ekki sé meirihluti á þingi fyrir því að haldið verði áfram með umsóknina. „Það var Alþingi sem ákvað að sótt yrði um aðildina. Það er því Alþingi sem á að taka ákvörðun um að stöðva þessar viðræður, í hvaða formi sem það verður gert,“ segir hann.

Einar segir að rökin sem þingmenn og ráðherrar VG hafi sett fram undanfarna daga máli sínu til stuðnings séu út af fyrir sig góð og gild, efnahagsvandræðin á evrusvæðinu, makríldeilan og annað því tengt séu allt staðreyndir.

„En þetta er hins vegar ekki nýtt  af nálinni. Það hefur verið efnahagslegt uppnám á evrusvæðinu frá árinu 2008, áður en aðildarumsóknin var samþykkt. Makríldeilan og krafan um viðskiptaþvinganir af hálfu ESB hafa verið viðvarandi misserum saman. Hingað til hafa ráðherrar og þingmenn VG ekki talið ástæðu til að bregðast við. Ekki fyrr en núna, þegar óttinn við kosningarnar springur út í opinberri umræðu,“ segir hann.

Grein Einars K. Guðfinnssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert