Forráðamenn ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Excursions Allrahanda íhuga að hætta þátttöku í verkefninu „Ísland allt árið“ vegna hugmynda stjórnvalda um að hækka virðisaukaskatt á gistingu en fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að slíkar hugmyndir vinni freklega gegn markmiðum átaksins um fjölgun erlendra ferðamanna yfir vetrartímann og aukinni verslun þeirra.
„Hækkun gistikostnaðar fækkar ferðamönnum sjálfkrafa og því verður ekki um neina 12% fjölgun vetrarferðamanna að ræða. Hækkun virðisaukaskatts um 2,5 milljarða króna á ári fer síðan gott með að hirða þá fjármuni sem áttu að fara í aukna verslun,“ segir í tilkynningunni. Átakinu sé því í raun sjálfhætt.
„Ríkisvaldið getur þá sparað sér þær 300 milljónir sem það ætlaði að setja í verkefnið og ferðaþjónustan sömu upphæð – og veitir víst ekki af til að eiga eitthvað smáræði upp í þá hækkun á virðisaukaskattinum sem fyrirtækin þurfa að taka á sig ef fjármálaráðherra er virkilega alvara með þessari gölnu hugmynd,“ segir ennfremur.