Næstu daga fara fram á Íslandi samræða um sjálfbærar borgir, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands stendur fyrir ásamt bandaríska arkitektinum William McDonough. Þátttakendur í samræðunni eru sérfræðingar og áhrifamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu og hópur forystumanna frá kínverskum borgum og rannsóknarstofnunum. Kínversku þátttakendurnir eru frá Beijing, Sjanghæ, Hong Kong og Wuxi.
Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að samræðan sé afrakstur viðræðna Williams McDonoughs við kínverska ráðamenn sem fram fóru þegar hann var í hópi bandarískra sérfræðinga sem fylgdu Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Kína fyrr á árinu. McDonough leitaði til forseta Íslands um að halda samræðuna á Íslandi, bæði vegna árangurs Íslendinga í nýtingu hreinnar orku og vegna langvarandi tengsla sinna við Ísland. McDonough valdi því næst þátttakendur í samræðunum.
Markmiðið að koma á samvinnu um borgir framtíðar
„William McDonough er meðal áhrifamestu arkitekta í Bandaríkjunum, höfundur kenninga um sjálfbærni borga og bygginga sem m.a. birtast í höfuðriti hans From Cradle to Cradle. Hann var sæmdur sérstökum heiðursverðlaunum árið 1996 af Bill Clinton Bandaríkjaforseta og hefur hannað margar þekktar byggingar, svo sem höfuðstöðvar YouTube í Silicon Valley og hina nýju sjálfbærnibyggingu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA,“ segir í fréttatilkynningu forsetaembættisins.
Markmið samræðnanna, sem hefjast á Bessastöðum í kvöld, er að koma á samvinnu kínverskra og vestrænna, einkum bandarískra, sérfræðinga og áhrifamanna í því skyni að borgir framtíðarinnar verði skipulagðar á grundvelli sjálfbærni og virðingar fyrir umhverfinu og lífríki jarðarinnar.