Hinsegin fólk á Íslandi var gert sýnilegra og röddum þeirra gefinn aðgengilegur vettvangur, með frumkvæði mbl-Sjónvarps að gerð þáttanna Trans og Út úr skápnum. Þetta segja Samtökin ´78 um viðurkenningu sem mbl.is hlaut á opnunarhátíð Hinsegin daga.
Samtökin birta pistil á heimasíðu sinni í dag vegna umræðnu sem kviknaði eftir opnunarhátíðina, þar sem Anna Kristjánsdóttir og dr. Óttar Guðmundsson hlutu mannréttindaviðurkenningu sem einstaklingar, en mbl-Sjónvarp hlaut viðurkenningu í flokknum Hópur, félag eða fyrirtæki. Viðurkenningin er afhent þeim sem hafa lagt lóð á vogarskálarnar til að auka mannréttindi, sýnileika, skilning, fræðslu og mannvirðingu hinsegin fólks í íslensku samfélagi.
Umræða byggð á misskilningi og rangfærslum
„Þó að almenn ánægja og gleði hafi ríkt í Háskólabíói að aflokinni glæsilegri Opnunarhátíð voru þó einhverjar óánægjuraddir sem tjáðu vonbrigði með val á viðurkenningahöfum,“ segir m.a. á síðu Samtakanna ´78, sem vilja nota tækifærið „nú eftir að rykið hefur sest, til þess að leiðrétta þann misskilning sem haldið hefur verið á lofti og til þess að tíunda ástæður vals síns.“
Samtökin segja það fráleitt að tengja valið á Mbl-Sjónvarpi við stjórnmálaflokka, fyrrverandi leiðtoga þeirra, atkvæðasmölun, efnahagshrunið o.fl. Það sé ósmekklegt gagnvart bæði þiggjendum og veitendum. „Eina pólitíkin sem stjórn og trúnaðarráð Samtakanna stunda er hinsegin pólitík, ekki flokkapólitík. Þannig skiptir engu máli hvar í flokki menn hugsanlega standa ef okkur finnst eitthvað vel gert,“ segja Samtökin.
Raddirnar berist til þeirra sem enn eru í skápnum
„Mbl-Sjónvarp og teymið sem stóð að baki gerðar þáttanna „Út úr skápnum“ og „Trans“ hlaut verðlaun fyrir framlag sitt til aukins sýnileika hinsegin veruleika nútímans. Með frumkvæði sínu að framleiðslu þessara vönduðu fræðsluþáttaraða hafa þau ekki aðeins gert hinsegin fólk á Íslandi sýnilegra heldur einnig skapað aðgengilegan vettvang fyrir raddir hinsegin fólks svo þær geti borist hátt og skýrt til þeirra einstaklinga sem enn hírast í loftlausum skápnum,“ segir í yfirlýsingu Samtakanna ´78.
Samtökin segjast standa staðföst að baki ákvörðun sinni að veita mbl-Sjónvarpi mannréttindaviðurkenningu sína og vona að viðurkenningum verði öðrum deildum innan Morgunblaðsins, öðrum fjölmiðlum sem og öllum sem um hinsegin málefni fjalla innblástur að metnaði fyrir faglegum vinnubrögðum, réttri orðanotkun og ómældri virðingu.