„Ég óttast það að ef við hættum þessum viðræðum við Evrópusambandið og gefumst upp á þessu verkefni værum við að einhverju leyti ekki að senda nógu góð skilaboð til atvinnulífsins og heimilanna,“ segir Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, spurður um yfirlýsingar úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þess efnis að rétt sé að endurskoða umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.
„Ég tel að við eigum bara að halda áfram þessum viðræðum og vinna að þessu sem best og leggja síðan samninginn í dóm þjóðarinnar og fólk getur þá tekið afstöðu til þess hvaða leiðir það telur skynsamlegastar. Við erum núna á næstunni að fá skýrslu frá Seðlabankanum þar sem farið er yfir kosti okkar í peningamálunum og þá munum við sjá glögglega hvaða aðrir kostir eru í stöðunni,“ segir hann.
Magnús segist alltaf hafa fagnað umræðu um peningamál Íslands og þær mögulegu leiðir sem hægt væri að fara í þeim efnum. „Evran er einn þeirra kosta sem að lokum bjóðast og við erum um leið að loka á það sem ég tel vera skynsamlegasta kostinn ef við hættum aðildarviðræðunum,“ segir hann og því væri rangt að hætta við umsóknina núna.