„Allt verður þetta að leggjast á farmiðana, blessaðir farþegarnir halda þessu gangandi. Það er komið að þolmörkum, fyrir nokkru,“ segir Hörður Guðmundsson, aðaleigandi Flugfélagsins Ernis, um auknar álögur á innanlandsflugið.
Félagið reynir að bregðast við með sparnaði og sagði upp tíu starfsmönnum um mánaðamót, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Flugfélagið Ernir er með áætlunarflug til fimm staða á landsbyggðinni, ýmist með samningum við samgönguyfirvöld eða eingöngu á viðskiptalegum forsendum. Hörður bendir á að samningarnir við ríkið hafi ekki fylgt þeim miklu kostnaðarhækkunum sem orðið hafi.
Þá segir hann að nýir skattar hafi verið lagðir á flugreksturinn og aðrir stórhækkaðir. „Það er ekki möguleiki að setja þetta allt út í verðlagið. Flugið ber það ekki heldur. Ég tel að það sé tap á öllu innanlandsflugi vegna óheyrilegrar skattlagningar,“ segir Hörður.